Fótbolti

Sjáðu slags­málin í lok úrslitaleiks HM fé­lags­liða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Enrique segist hafa verið að stilla til friðar en það var ekki að sjá. Hér ýtir hann Chelsea manninum Joao Pedro.
Luis Enrique segist hafa verið að stilla til friðar en það var ekki að sjá. Hér ýtir hann Chelsea manninum Joao Pedro. Getty/Heuler Andrey

Chelsea tryggði sér heimsmeistaratitil félagsliða með því að pakka Paris Saint Germain saman í úrslitaleiknum í New York í gærkvöldi. Þetta var fyrsta tap franska liðsins í langan tíma og leikmenn og þjálfari þess virtust taka tapinu mjög illa.

Tapsárir leikmenn og þjálfari Parísar liðsins lentu í leiðindum við Chelsea manninn Joao Pedro í leikslok.

Joao Pedro skoraði þriðja mark Chelsea í leiknum en það er margt sem bendir til þess að hann hafi verið að stríða eða espa upp PSG menn eftir lokaflautið miðað við hörð viðbrögð þeirra.

Luis Enrique, þjálfari PSG, virtist þó fara fyrir látunum og það leit út fyrir að hann hafi gripið um háls Joao Pedro áður en hann ýtti honum í jörðina. Leikmenn hans, Gianluigi Donnarumma og Achraf Hakimi, voru líka í aðalhlutverkum í látunum.

Fleiri leikmenn blönduðu sér einnig í slagsmálin en Enzo Maresca, stjóri Chelsea gerði síðan allt sem í sínu valdi stóð til að koma sínum leikmönnum í burtu frá látunum.

Enrique hélt hins vegar fram sakleysi sínu á blaðamannafundi eftir leikinn og sagði hafa aðeins verið að stilla til friðar. 

Heldur fram sakleysi sínu

„Ég mun alltaf sýna tilfinningar mínar í lok pressuleikja. Þetta er mjög stressandi fyrir okkur alla og það er ómögulegt að forðast það að sýna viðbrögð,“ sagði Enrique.

„Allir tóku þátt í þessu. Þetta var ekki það besta í stöðunni. Ég sá [Enzo] Maresca ýtti öðrum og við urðum að skilja leikmenn að. Ég veit ekki hvað olli þessu. Við verðum samt að forðast svona aðstæður. Það liggur í augum uppi,“ sagði Enrique. 

„Ég var komin þarna til að skilja menn að til að þetta yrði ekki enn verða,“ sagði Enrique. 

Dæmi nú hver fyrir sig hér fyrir neðan. Var Enrique maður friðar eins og hann heldur fram?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×