Sport

Fær ekki heims­met sitt viður­kennt: „Þetta er kjána­legt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karsten Warholm hélt að hann hefði sett heimsmet á heimavelli en Alþjóða frjálsíþróttasambandið vill ekki viðurkenna það.
Karsten Warholm hélt að hann hefði sett heimsmet á heimavelli en Alþjóða frjálsíþróttasambandið vill ekki viðurkenna það. Getty/Maja Hitij

Norðmaðurinn Karsten Warholm er á því að hann hafi sett nýtt heimsmet í 300 metra grindahlaupi á dögunum en Alþjóða frjálsíþróttasambandið er ekki sammála því.

Warholm segist þó ekkert vera að missa sig yfir ákvörðuninni.

„Ég hef svo sem engan sérstakan áhuga á þessu en þetta er kjánalegt miðað við hvað margt er kallað heimsmet í frjálsum íþróttum í dag,“ sagði Karsten Warholm við norska ríkisútvarpið.

Warholm náði frábæru hlaupi á Bislett leikvanginum í Osló í júní þegar hann hljóp 300 metra grindahlaup á 32,37 sekúndum. Hann sló þá eigið met frá því í apríl í Kína þegar hann kláraði sama hlaup á 33,05 sekúndum.

„Mér finnst þetta met í 300 metra grindahlaupi vera virkilega gott met. Mér finnst það nógu merkilegt til að fá að kallast heimsmet. Þeir sem er ekki sammála mér geta bara reynt að bæta það,“ sagði Warholm.

Warholm á heimsmetið í 400 metra grindahlaupi en hann hljóp það á 45,94 sekúndum þegar hann tryggði sér Ólympíugullið í Tókýó 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×