Enski boltinn

Man. Utd vill fá úr­slita­leikinn á HM kvenna í fót­bolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Svona á nýr leikvangur Manchester United liðsins að líta út í framtiðinni.
Svona á nýr leikvangur Manchester United liðsins að líta út í framtiðinni. Manchester United

Manchester United stefnir á að byggja nýjan hundrað þúsund manna völl á landsvæðinu við hlið Old Trafford leikvangsins. Draumurinn er líka að fá þangað úrslitaleikinn á HM kvenna í fótbolta árið 2035.

Simon Stone hjá breska ríkisútvarpinu skrifar um nýtt metnaðarfullt markmið Manchester United.

Í marsmánuði kynntu forráðamenn Manchester United plön sín um að byggja tveggja milljarða punda risaleikvang á næstu fimm til sex árum. Leikvangurinn kostar að minnsta kosti 335 milljarða króna en sú upphæð gæti hækkað verulega.

Eigandinn Sir Jim Ratcliffe hefur lagt mikla áherslu á að fá nýjan Old Trafford og talar oft um að byggja Wembley norðursins.

Heimsmeistarakeppni kvenna árið 2035 verður líklegast haldin á Bretlandseyjum því ekkert annað tilboð er komið fram.

Enska knattspyrnusambandið er að vinna við að útbúa sitt framboð með hinum samböndunum á Bretlandseyjum og stefna á að skila því inn fyrir lok ársins.

United telur að félagið verði búið að vígja nýja leikvanginn sinn löngu fyrir sumarið 2035 en forráðamenn félagsins átta sig á því að það gætu líka orðið tafir á verkefninu.

Flestir búast við því að úrslitaleikur á HM á Englandi fari fram á Wembley leikvanginum en hver veit nema að United fá þann heiður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×