Enski boltinn

Everton búið að finna sinn Peter Crouch

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thierno Barry fagnar einu marka sinna með Villarreal á síðustu leiktíð.
Thierno Barry fagnar einu marka sinna með Villarreal á síðustu leiktíð. Getty/Ivan Terron

Enska úrvalsdeildarfélagið Everton er að ganga frá kaupum sínum á framherjann Thierno Barry frá spænska félaginu Villarreal.

Barry er 22 ára gamall en það meira er að hann er 196 sentímetrar á hæð. Það má því segja að Everton sé með þessu komið með sinn Peter Crouch og það ætti að vera auðvelt að finna hann í teignum á næstu leiktíð.

Barry er ætlað að fylla í skarð þeirra Dominic Calvert-Lewin og Armando Broja sem spila ekki áfram með liðinu.

Barry er Frakki, fæddur í Lyon en fór nítján ára gamall frá Sochaux til belgíska b-deildarliðsins Beveren. Þaðan fór hann til Basel í Sviss áður en Villarreal keypti hann á um þrettán milljónir punda árið 2024.

Talið er að Everton kaupi hann núna á 27 milljónir punda eða um fjóran og hálfan milljarð. Hann var með samning við spænska félagið til 2029.

Barry er ekki aðeins hávaxinn því hann er mjög öflugur í loftinu. Barry vann 67 prósent af 153 skallaeinvígum sínum í spænska deildinni á síðustu leiktíð.

Hann var einn af fáum leikmönnum í fimm bestu deildum Evrópu 22 ára og yngri sem náðu að skora tíu deildarmörk.

Barry skoraði 11 mörk í 35 deildarleikjum þar af þrennu á móti Leganés. Honum tókst þó ekki að skora á móti risunum þremur, Barcelona, Real Madrid og Atlético Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×