Fótbolti

Kláruðu óupp­gert Evrópu­ein­vígi 65 árum síðar

Siggeir Ævarsson skrifar
Leikmenn liðanna stilla sér upp fyrir leik
Leikmenn liðanna stilla sér upp fyrir leik Twitter@OfficialNIFL

Stórmerkilegur Evrópuleikur fór fram á Norður-Írlandi í dag þegar Glenavon FC tók á móti Erzgebirge Aue frá Þýskalandi. Sennilega kannast þó fáir við þessi lið enda leika þau bæði í neðri deildum og átti leikurinn upphaflega að fara fram árið 1960.

Glenavon vann írska meistaratitilinn árið 1960 og dróst gegn Erzgebirge Aue í Evrópukeppninni næsta tímabil. En þar sem Erzgebirge Aue var staðsett á bakvið Járntjaldið í Austur-Þýskalandi fengu leikmenn Glenavon ekki vegabréfsáritanir og þrátt fyrir að heimild hefði fengist til að leika báða leikina á hlutlausum völlum varð ekkert úr því og Evrópudraumar Glenavon runnu út í sandinn.

Tvít tengdi liðin saman á ný

Adam Carson, fjölmiðlafulltrúi Glenavon, skrifaði tvít fyrir nokkrum árum þar sem hann ákvað að reyna að kanna áhuga Þjóðverjana á að klára einvígið og er skemmst frá því að segja að stuðningsmenn Erzgebirge Aue tóku gríðarlega vel í málið. Fyrri leikur liðanna fór fram í Þýskalandi í fyrra þar sem Þjóðverjarnir fóru með 5-0 sigur af hólmi og seinni leikurinn var leikinn í dag en einvígið endaði alls 7-0 þýska liðinu í vil.

Um 1.200 þýskir stuðningsmenn gerðu sér ferð til Lurgan, heimabæjar Glenavon, og fóru í skrúðgöngu um bæinn fyrir leikinn við mikinn fögnuð innfæddra enda ekki á hverjum degi sem svo margir ferðamenn heimsækja þennan 38 þúsund manna bæ á Norður-Írlandi.

Ekki eina dæmið um löngu frestaðan leik

Úrslitin í leikjunum tveimur eru eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst táknræn en Carson sagði að hugmyndin hefði kviknað út frá því að leyfa þessum tveimur fyrrum meistaraliðum að mætast og að aðdáendur gætu fagnað saman.

Þetta Evrópueinvígi er þó ekki eina dæmið um frestað Evrópuleik sem var leikinn löngu seinna en árið 1930 var leikur Lailapas frá Grikklandi og Karşıyaka frá Tyrklandi flautaður af vegna veðurs eftir aðeins þrjár mínútur. Sá leikur var flautaður á á ný árið 2014 en í stöðunni 5-5 var ákveðið að leyfa honum að standa sem jafntefli um aldir alda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×