Fótbolti

„Full­komið kvöld“ þegar Chelsea fór á­fram í undan­úr­slit HM

Haraldur Örn Haraldsson skrifar
Estevao Willian (vinstri) talar við sína verðandi liðsfélaga. Dario Essugo (miðja) Cole Palmer (hægri)
Estevao Willian (vinstri) talar við sína verðandi liðsfélaga. Dario Essugo (miðja) Cole Palmer (hægri) Getty/Darren Walsh

Chelsea vann Palmeiras í nótt í 8-liða úrslitum HM-félagsliða 2-1. Liðið frá London er því farið áfram í undanúrslit þar sem þeir munu mæta Fluminense, en Thiago Silva fyrrum leikmaður Chelsea spilar fyrir þá.

Leikurinn byrjaði vel fyrir Chelsea þar sem aðalstjarna liðsins Cole Palmer skoraði fyrsta mark leiksins á 16. mínútu.

Palmeiras jafnaði svo leikinn, en það var ungstirnið Estevao Willian sem negldi boltanum upp í innanverða slána, og boltinn endaði í netinu.

Estevao, oft kallaður Messinho, er búinn að skrifa undir samning hjá Chelsea. Hann klárar þetta mót fyrir Palmeiras og fer svo til Chelsea, en með þessu marki kynnti hann sig vel fyrir stuðningsmönnum, og verðandi liðsfélögum.

Það var síðan á 83. mínútu sem Weverton skoraði sjálfsmark sem kom Chelsea í 2-1. Fullkomið kvöld fyrir Lundúnaliðið, sigur og Estevao skoraði.

„Ég er ánægður því við unnum, en ég er líka ánægður því að Estevao skoraði. Þetta var fullkomið kvöld,“ sagði Enzo Maresca þjálfari Chelsea eftir leikinn.

„Við ætlum að hjálpa honum að aðlagast, vera hamingjusamur og njóta fótboltans. Við efumst ekki um það að hann verði góður leikmaður fyrir Chelsea,“ sagði Maresca.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×