Íslenski boltinn

Fær tveggja leikja bann fyrir hártogið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elaina Carmen La Macchia togar hér Sæunni Björnsdóttur niður á hárinu.
Elaina Carmen La Macchia togar hér Sæunni Björnsdóttur niður á hárinu. Sýn Sport

EM-fríið verður aðeins lengra hjá Framaranum Elainu Carmen La Macchia heldur en öðrum leikmönnum Bestu deildar kvenna í fótbolta.

Aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands dæmdi hana í dag í tveggja leikja bann.

Mál hennar kom inn á borð í kjölfar málskots frá málskotsnefnd KSÍ.

Atvikið sem um ræðir varð í leik Fram og Þróttar 20. júní síðastliðinn. Carmen togaði þá niður Þróttarann Sæunni Björnsdóttur á hárinu.

Dómari leiksins, Bríet Bragadóttir, missti af þessu en dæmdi aftur á móti aukaspyrnu á Sæunni sem öskraði þannig að allir heyrðu: Hún togaði í hárið á mér.

Þegar atvikið var skoðað betur kom það vel í ljós að Carmen togaði Sæunni niður á hárinu.

Þessi dómur þýðir að Carmenn missir af leikjum á móti FH (25. júlí) og Breiðabliki (7. ágúst). Fyrsti leikur hennar eftir EM-fríið verður því ekki fyrr en 12. ágúst á móti FHL í Fjarðabyggðarhöllinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×