Fótbolti

Dortmund mætir Real en Bellingham bræður mætast ekki

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jobe Bellingham reyndi að sannfæra dómarann svo hann gæti mætt bróður sínum en án árangurs.
Jobe Bellingham reyndi að sannfæra dómarann svo hann gæti mætt bróður sínum en án árangurs. Shaun Botterill - FIFA/FIFA via Getty Images

Borussia Dortmund komst áfram í átta liða úrslit heimsmeistaramóts félagsliða með 2-1 sigri gegn Monterrey í nótt. Þar mun liðið mæta Real Madrid en Jobe Bellingham verður í leikbanni eftir að hafa fengið sitt annað gula spjald á mótinu.

Bellingham fékk spjaldið fyrir slæma tæklingu undir lok fyrri hálfleiks og verður í banni í næsta leik, vegna þess að hann fékk líka gult spjald í leik gegn Ulsan HD í riðlakeppninni.

Reglur mótsins kveða á um leikbann ef leikmaður fær gul spjöld í tveimur mismunandi leikjum en þau þurrkast út eftir átta liða úrslitin, þannig að enginn missi af úrslitaleiknum fyrir að fá gult spjald í undanúrslitum.

„Ég held að hann hafi ekki áttað sig á því, þegar hann kom inn í hálfleik, að hann fengi leikbann. Þetta kom honum aðeins á óvart“ sagði þjálfari Dortmund, Niko Kovac.

„Hann er ungur, þeir bræðurnir eru báðir ungir og ég er viss um að þeir eigi eftir að mætast. Kannski á næsta tímabili í Meistaradeildinni og oftar í framtíðinni. Framtíðin er þeirra“ sagði hann einnig á blaðamannafundi eftir sigurinn.

Serhou Guirassy skoraði bæði mörk Dortmund, í fyrri hálfleik, eftir stoðsendingar frá Karim Adeyemi.

German Berterame minnkaði muninn fyrir Monterrey þegar liðið reyndi að snúa leiknum við í seinni hálfleik.

Fyrrum Madrídingurinn Sergio Ramos var svo næstum því búinn að setja jöfnunarmarkið seint í leiknum en skallaði rétt framhjá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×