Fótbolti

„Mitt per­sónu­lega mark­mið að kveikja í stuðnings­mönnum Vals“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Túfa á hliðarlínunni í kvöld.
Túfa á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/Diego

Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals, var að vonum ánægður með sigur sinna manna gegn Stjörnunni í undanúrslitum Mjólkurbikars karla í kvöld.

„Mér fannst frammistaða liðsins mjög góð heilt yfir, við áttum erfiða byrjun og vorum smá hægir. Stjörnumenn náðu að nýta sér það vel og komust sanngjarnt yfir 1–0. Mér fannst við hægt og rólega komast betur og betur inn í leikinn og náum að jafna sanngjarnt því á þeim tíma erum við að taka yfir leikinn. Við komum svo mjög sterkir út í seinni hálfleik og unnum sanngjarnt á endanum.“

Valur hefur ekki unnið titil síðan 2020. Þeir komust í undanúrslit Mjólkurbikarsins í fyrra en féllu þar út. Hversu mikilvægt er fyrir klúbbinn að komast alla leið í bikarnum?

„Ég var stoltur að sjá allan stuðninginn í dag. Það er eitthvað af mínum persónulegu markmiðum að kveikja aftur í stuðningnum sem Valur hefur alltaf haft. Við höfum séð síðustu ár í handboltanum og körfuboltanum hversu stór stuðningurinn er, það er gaman að vera Valsari og það er gaman að vera í Valsheimilinu. Það hefur verið minna um það hér í fótboltanum frá 2020, þegar við unnum síðasta titill og hvað þá í bikarnum frá 2016. “

„Við, stjórnin, þjálfarar og leikmennirnir erum búin að leggja inn þvílíka vinnu til þess að koma klúbbnum aftur á þann stað að keppa um titla og í dag var fyrsta skrefið með því að komast í úrslitaleik Mjólkurbikarsins.“

„Úrslitaleikurinn er í ágúst og við eigum þó nokkra leiki sem við eigum eftir að spila áður en við spilum þann leik. Ég vona að strákarnir fagni vel í kvöld en við eigum strax leik á laugardaginn á móti Vestra í deildinni sem er einnig mikilvægur þannig að það er ekki mikill tími núna að hugsa um bikarinn. Við þurfum núna að koma okkur niður á jörðina aftur og byrja undirbúning á morgun fyrir mjög erfiðan leik á laugardaginn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×