Fótbolti

Treyjan hans Bjarka í góðum höndum hjá Mainoo

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kobbie Mainoo virtist líða vel í íslensku treyjunni.
Kobbie Mainoo virtist líða vel í íslensku treyjunni. X/UtdDistrict

Tap enska karlalandsliðsins gegn því íslenska í vináttulandsleik fyrir EM á síðasta ári virðist ekki sitja lengur í Kobbie Mainoo, leikmanni Manchester United.

Breska götublaðið Daily Mail sagði í gær frá því að sést hefði til Kobbie Mainoo æfa með fyrrverandi liðsfélögum sínum, James Garner og Mason Greenwood.

Í umfjöllun Daily Mail kemur svo sem ekki mikið meira fram en það að þremenningarnir hefðu sést æfa saman. Það sem vekur kannski athygli okkar Íslendinga er það að Mainoo, sem er sá eini af þremenningunum sem enn er leikmaður Manchester United, skartaði heiðblárri íslenskri landsliðstreyju á leið sinni á æfingu.

Þegar betur er að gáð má sjá að þetta er treyja númer 15, og er þetta því að öllum líkindum treyja sem Mainoo fékk frá Bjarka Steini Bjarkasyni eftir 1-0 tap Englands gegn Íslandi á Wembley í fyrra.

Leikurinn var liður í undirbúningi Englendinga fyrir Evrópumótið sem fram í Þýskalandi.

Tap gegn litla Íslandi var líklega ekki undirbúningurinn sem enska þjóðin vonaðist eftir, en Englendingar komust þó alla leið í úrslit mótsins þar sem liðið mátti þola tap gegn Spánverjum.

Tapið gegn Íslandi virðist þó ekki sitja lengur í Mainoo. Eins og sjá má á meðfylgjandi færslu á samfélagsmiðlinum X virtist honum líða vel í treyjunni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×