Fullkomið hlaup Andreu
Andrea Kolbeinsdóttir varð fyrst til að fella Íslandsmet, sitt eigið, þegar hún hljóp þrjú þúsund metra hindrunarhlaup á fyrri keppnisdeginum. Hún hljóp að eigin sögn fullkomið hlaup, kom í mark á 10:07,38 mínútum og bætti Íslandsmetið um rúmlega eina sekúndu.



Ósvikin gleði hjá Irmu
Irma Gunnarsdóttir varð svo önnur til að fella Íslandsmet en hún gerði það í gær með 13,72 metra löngu þrístökki. Það sýndi sig í útsendingu frá mótinu hversu miklu máli það skipti Irmu að bæta eigið Íslandsmet, gleðin var ósvikin hjá henni er nýtt Íslandsmet var staðfest og kollegar hennar í íslenska landsliðinu fögnuðu ákaft úr stúkunni líkt og sjá má hér fyrir neðan.

Eir Chang bætti met liðsfélaga
Eir Chang Hlésdóttir setti þriðja Íslandsmetið á Evrópubikarnum í frjálsíþróttum í gær þegar hún sló metið í tvö hundruð metra hlaupi. Eir sló þar Íslandsmet liðsfélaga síns því gamla metið átti Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sem var einnig að keppa fyrir Ísland í Evrópubikarnum.

What a reaction…and a name to watch! 🫶
— European Athletics (@EuroAthletics) June 25, 2025
Only 17, Iceland’s Eir Hlesdottir 🇮🇸 wins the women’s 200m in a national senior record of 23.44! ⚡️ #ETCH2025 #Maribor2025 pic.twitter.com/urhkGS6Do6
Boðhlaupssveitin stakk sér til sunds
Íslenska boðhlaupssveitin í blönduðu 4×400 metra boðhlaupi innsiglaði svo frábæran árangur íslenska liðsins með því að setja fjórða Íslandsmetið á mótinu, þegar þau komu í mark á 3:25,96 mínútum.

Íslensku sveitina skipuðu þau Ívar Kristinn Jasonarson, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Sæmundur Ólafsson og Ísold Sævarsdóttir, sem fengu sér sundsprett eftir á og fögnuðu metinu.

„Alvöru liðsandi, ekki bara í þessu liði heldur öllu íslenska liðinu“ sögðu þau.
Samstaðan mikil milli reynslubolta og nýliða
„Það var frábært að fylgjast með liðinu keppa, liði sem samanstendur af reynsluboltum og nýliðum, liði þar sem augljóst er að samstaðan og stemmingin er mikil og liði sem lagði allt sitt í keppnina og sýndi hvað í því býr“ sagði Soffía Svanhildar Felixdóttir, fræðslustjóri Frjálsíþróttasambandsins, eftir mótið.
