Það er félagsskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano sem greinir frá þessu á samfélagsmiðlinum X. Verið sé að ganga frá síðustu lausu endum samkomulagsins milli leikmannsins og félagsins, þar á meðal hvort samningurinn verði til eins eða tveggja ára en það veltur á Ronaldo sjálfum.
🚨🇵🇹 BREAKING: Cristiano Ronaldo set to sign new deal at Al Nassr as formal documents are being checked.
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) June 25, 2025
Final detail being discussed: one or two year deal, concrete possibility to make it happen until June 2027 if Cristiano wants.
Massive move for SPL to keep Cristiano. pic.twitter.com/Aw1dyKPUNO
Mikið hafði verið rætt um framtíð Ronaldo í aðdraganda heimsmeistarakeppni félagsliða sem nú stendur yfir í tengslum við það hvort Ronaldo myndi skipta yfir til félags sem tekur þátt á mótinu. Ekkert varð úr því og nú virðist dvöl hans í Sádi-Arabíu ætla að standa lengur yfir.
Fyrr í dag greindi Al-Nassr frá því að aðalþjálfari liðsins Stefano Pioli hefði látið af störfum sem og þjálfarateymið í kringum hann, Ronaldo mun því spila undir stjórn nýs þjálfara á næstunni.

Ronaldo, sem er af mörgum talinn einn besti knattspyrnumaður allra tíma, varð fjörutíu ára fyrr á þessu ári. Hann hefur verið á mála hjá Al-Nassr síðan snemma árs 2023 og var markahæsti leikmaður sádiarabísku deildarinnar á nýafstöðnu tímabili með 25 mörk, Al-Nassr endaði í 3.sæti deildarinnar.
Portúgalinn hefur hingað til átt afar farsælan feril bæði með félagsliðum á borð við Manchester United, Real Madrid og Juventus en einnig með portúgalska landsliðinu. Ronaldo varð Evrópumeistari með Portúgal árið 2016 og nýverið hjálpaði hann liðinu að vinna Þjóðadeildina.