Svisslendingar verða á heimavelli á mótinu og hafa tekið sér góðan tíma í að kynna EM-hópinn sinn fyrir svissnesku þjóðinni. Búinn var til eins konar ratleikur þar sem stuðningsmenn gátu leitað að treyjum landsliðskvenna sem eru í hópnum, og fengið sína eigin treyju í fundarlaun.
Þannig hefur hópurinn verið að skýrast síðustu daga og síðustu tvö nöfnin verða opinberuð í fyrramálið.
Það er þó þegar ljóst að Lehmann verður í hópnum sem sænski reynsluboltinn Pia Sundhage hefur nú valið.
„Gæti ekki verið ánægðari með að fá að vera fulltrúi minnar þjóðar á EM, ég er svo þakklát fyrir þetta tækifæri,“ skrifaði Lehmann á Instagram, þar sem hún er með 16,7 milljónir fylgjenda.
Til samanburðar eru Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir líklega vinsælastar íslensku landsliðskvennanna á Instagram, með um 70 þúsund fylgjendur hvor.
Lehmann var ekki í svissneska hópnum í leikjunum við Ísland í Þjóðadeildinni, í febrúar og apríl, þegar liðin gerðu 0-0 jafntefli í Sviss og 3-3 jafntefli í Laugardal. Hún spilaði hins vegar í 4-0 tapi gegn Frökkum og 1-0 tapi gegn Noregi um síðustu mánaðamót og hefur nú fengið sæti í EM-hópnum.
„Við skulum gera svissnesku þjóðina stolta og sýna hve mikið fótbolti kvenna er að stækka. Við erum Sviss,“ skrifaði Lehmann á Instagram.

Tók fram úr Morgan fyrir tveimur árum
Það var árið 2023 sem að Lehmann tók fram úr hinni bandarísku Alex Morgan sem vinsælasta knattspyrnukonan á Instagram. Hún lék sinn fyrsta landsleik árið 2017.
Lehmann er einnig leikmaður Juventus á Ítalíu og var áður í sambandi við leikmann karlaliðs félagsins, Douglas Luiz, en þau slitu sambandinu í vor.
Leikur Íslands við Sviss er leikur tvö hjá stelpunum okkar á mótinu. Þær byrja á leik við Finnland 2. júlí og spila svo við Sviss 6. júlí og loks Noreg 10. júlí. Tvö þessara liða komast svo áfram í 8-liða úrslit.