Í tilkynningu segir að Ragnhildur og Hreinn komi inn á orkusvið N1 og Svavar gegni stöðu deildarstjóra dagvörusviðs félagsins.
„Ragnhildur tók nýlega við starfi sölu- og þjónustustjóra orkusviðs hjá N1 sem heldur m.a. utan um sölu fyrirtækisins á raforku, rafhleðslustöðvum og rekstri þeirra vítt og breitt um land. Ragnhildur gegndi síðast starfi deildarstjóra söluráðgjafar hjá Símanum og þar áður var hún vörustjóri Sjónvarps Símans. Ragnhildur hefur lokið Executive MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og er viðskiptafræðingur að mennt með áherslu á markaðsfræði frá Hult International Business School í London.
Hreinn hefur tekið við starfi rekstrarstjóra, einnig á orkusviði N1, en þangað kom hann frá Festi, þar sem hann starfaði allt frá samruna félaganna árið 2018. Fyrir þann tíma, eða frá 2016, starfaði Hreinn á fjármálasviði N1 og má því segja að hann sé kominn heim á ný eftir lærdómsrík ár hjá Festi, þar sem hann bar m.a. ábyrgð á innheimtu fyrir öll félög samstæðunnar auk umsjónar með viðskiptareikningum félaganna og fleiru. Hreinn er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.
Svavar Kári var ráðinn í stöðu deildarstjóra dagvörusviðs N1, en hann starfaði áður hjá Ölgerðinni þar sem hann starfaði sem vörumerkjastjóri Collab á innlendum markaði frá 2018 til 2022. Þegar Ölgerðin hóf formlega útrás með drykkinn á erlenda markaði færði Svavar sig yfir í útflutningsdeildina, þar sem hann gegndi lykilhlutverki í undirbúningi og vexti vörumerkisins erlendis ásamt því að sinna öðrum útflutningsverkefnum. Svavar er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands,“ segir í tilkynningunni.