Á vef Veðurstofunnar segir að það verði rigning eða slydda norðan- og norðaustanlands en ákefðin minni en í gær.
Það er þó ennþá gul viðvörun á norðanverðu landinu vegna rigningar þar sem skriðuhætta viðhelst meðan ekki styttir upp. Bjart með köflum sunnan- og vestantil.
Gera má ráð fyrir að hiti verði á bilinu þrjú til fjórtán stig.
Á morgun dregur úr vætu og styttir að mestu upp seinnipartinn, en skúrir á Suðausturlandi. Annað kvöld kemur síðan lægðardrag með rigningu að Vestfjörðum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag og laugardag: Norðan 3-8 m/s, en norðvestan 8-13 við norðausturströndina. Dálítil rigning eða slydda á Norður- og Austurlandi, annars bjart með köflum, sums staðar stöku skúr. Hiti 1 til 12 stig, hlýjast á Suðausturlandi.
Á sunnudag (hvítasunnudagur): Hæg breytileg átt og víða dálitlar skúrir, en þurrt að kalla norðaustan- og austanlands. Hiti 3 til 11 stig, hlýjast sunnanlands.
Á mánudag (annar í hvítasunnu): Hæg norðlæg eða breytileg átt og skúrir, einkum á sunnanverðu landinu. Hiti 4 til 11 stig.
Á þriðjudag: Breytileg átt og skúrir, en skýjað með köflum og að mestu þurrt norðantil. Hiti 5 til 12 stig.
Á miðvikudag: Útlit fyrir austlæga átt, bjartviðri og hlýnandi veður.