Greint var frá því í apríl síðastliðnum að HM 2031 myndi fara fram í Bandaríkjunum og þá myndu, í fyrsta sinn, 48 þjóðir taka þátt. Bandaríska knattspyrnusambandið greindi síðar frá áformum um að fleiri CONCACAF þjóðir tækju þátt í að halda mótið.
Nú hefur knattspyrnusamband Mexíkó lýst því yfir við ESPN og The Athletic að mótið verði einnig haldið þar í landi. Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA og bandaríska knattspyrnusambandið hafa hins vegar ekki tjáð sig enn um yfirlýsingar mexíkóska knattspyrnusambandsins.
Mexíkó tók ekki fram hvernig leikjum verður skipt milli landa en vænta má þess að meirihluti mótsins fari fram í Bandaríkjunum.
Líkt og á HM 2026 í karlaboltanum, sem fer fram í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada. Þar munu 13 leikir fara fram í Mexíkó og Kanada en 78 leikir í Bandaríkjunum, þar með talið átta liða úrslitin, undanúrslitin og úrslitaleikurinn.
Bandaríkin og Mexíkó höfðu áður lagt fram sameiginlegt boð um að halda HM kvenna 2027, en drógu boðið til baka þegar spurðist út að FIFA myndi gera HM 2031 að 48 liða móti. Bandaríkin fóru þá á fullt við að skipuleggja það sem verður stærsta kvennamót frá upphafi og Brasilía bauðst til að halda HM 2027.