Miðjumaðurinn Mikel Merino gekk í raðir Arsenal síðasta sumar en meiddist snemma og var frá í rúma tvo mánuði. Á endanum vann hann sér inn fast sæti í liðinu, þá sem fremsti maður þegar Skytturnar hans Arteta var í mikilli framherjakrísu. Þó það sárvanti framherja hefur Mikel Arteta ákveðið að sækja annan miðjumann frá Sociedad.
Sá heitir Zubimendi og er líkt og Merino frá Spáni. Hinn 26 ára gamli Zubimendi á að baki 17 A-landsleiki fyrir Spán og mun kosta Skytturnar 51 milljón punda eða 8,8 milljarða íslenskra króna.
Zubimendi var tæpur á að ganga til liðs við Liverpool sumarið 2024 en ákvað á endanum að vera áfram hjá Sociedad. Sky Sports segir hann nú vera að ganga í raðir Arsenal og kaupin svo gott sem frágengin þó enn eigi eftir að kvitta undir alla pappíra.
Er honum ætlað að leysa Jorginho af hólmi. Ítalski landsliðsmaðurinn hefur samið við Flamengo í Brasilíu en hann er fæddur og uppalinn þar í landi.