Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
„PCC BakkiSilicon hf. hefur kynnt áform sín um tímabundna rekstrarstöðvun hjá PCC á Bakka á Húsavík frá miðjum júlí 2025. Ákvörðunin er tekin vegna erfiðleika á mörkuðum fyrir kísilmálm og nýlegra raskana á alþjóðamörkuðum í kjölfar tollastríðs,“ segir í tilkynningunni.
Innflutningur frá Kína segi sitt
Þá hafi ódýr innflutningur á niðurgreiddum kísilmálmi, sér í lagi frá Kína, með lakari sjálfbærni- og umhverfisstöðlum, haft mikil áhrif á markaðsverð á Íslandi. Mikilvægt sé að íslensk stjórnvöld hraði skoðun á markaðsaðstæðum sem fyrirtæki eins og PCC Bakki glími við vegna þessa.
Félagið hafði áður kært innflutning á kísilmálmi hingað til lands á undirverði til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem fjallar nú um málið. Eins hafi samtök kísilmálmframleiðenda í Evrópu óskað eftir verndartollum til að koma í veg fyrir að framleiðsla í Evrópusambandinu leggist af með öllu.
Tilbúin að byrja aftur
„Á meðan á rekstrarstöðvun stendur verður unnið áfram að umbótaverkefnum, rýni ferla, þjálfunarefni og endurskipulagningu rekstursins í heild. Er þetta gert til þess að vera í stakk búin til að hefja starfsemi að nýju með skömmum fyrirvara um leið og aðstæður leyfa. PCC SE er áfram staðráðið í að þróa verksmiðjuna til framtíðar enda er á Bakka rekin ein nútímalegasta og umhverfisvænasta kísilmálmframleiðsla heims.“
Með rekstrarstöðvuninni mun um 80 starfsmönnum verða sagt upp. Í tilkynningu segir að PCC harmi þau áhrif sem stöðvunin hefur á starfsfólk og fjölskyldur þess í nærumhverfinu, og þar með samfélagið allt.
„PCC SE hefur verið í stöðugu samtali við lykilhagsmunaaðila og mun halda því áfram með það markmið að finna sameiginlega lausn til að endurræsa starfsemi þegar markaðsaðstæður leyfa.“