Kveikur á Ríkisútvarpinu fjallaði um njósnir sem fyrirtækið PPP stundaði á vegum Björgólfs Thors Björgólfssonar um fólk eftir hrun í lok apríl. Jón Óttar, sem var annar eigenda PPP, kærði ritstjórn Kveiks og fréttamennina Ingólf Bjarna Sigfússon og Helga Seljan til siðanefndar Blaðmannafélagsins vegna hennar.
Fullyrti Jón Óttar í kærunni að vinnubrögð fréttamanna RÚV hefðu verið ámælisverð og að þær vörðuðu siðareglur Blaðamannafélagsins.
Siðanefndin taldi kæruna ekki uppfylla þau formskilyrði sem gerð væru. Kæruefnið væri ekki skýrt afmarkað, ekki væri að sjá að Jón Óttar hefði leitað leiðréttinga á umfjölluninni og þá hafi afrit af umfjölluninni sem var kærð ekki fylgt. Af þessum sökum væri ekki annað hægt en að vísa málinu frá að svo stöddu.
Lögreglan á Suðurlandi rannsakar nú hvernig upptökur úr símahlerunum á vegum sérstaks saksóknara á árunum eftir hrun voru í fórum PPP. Í áframhaldandi umfjöllun RÚV um málefni fyrirtækisins kom fram að það hefði nýtt sér slík gögn til þess að selja þjónustu sína.