Það fer vel um Sóma gamla á bænum Ytri Skógum undir Eyjafjöllum þar sem hann er duglegur að bíta gras og njóta þeirra gæða, sem svæðið hans hefur upp á að bjóða. Ekki spillir fyrir að merin Jörp er með honum en hún er 30 vetra. Sómi er sótrauðblesóttur og er mjög líklega elsti hestur landsins en meðalaldur íslenskra hesta er 22 vetra samkvæmt upplýsingum frá hrossaræktarráðunaut.
Sigríður Ingibjörg á Sóma og samband þeirra er einstakt því þeim þykir svo vænt um hvort annað.
„Þetta er höfðingi enda er hann er algjör meistari. Þetta er fyrsti hesturinn, sem ég eignaðist og kom mér í hestamennsku. Hann er að nálgast fertugt en hann er í dag þrjátíu og sex vetra,“ segir Sigríður Ingibjörg.
Finnst þér þetta ekki vera með ólíkindum?
„Júa, það er það, mér fannst hann gamall þegar við fengum hann, það var fyrir 19 árum en hann er mjög gamall núna,“ segir Sigríður hlæjandi.
Sigríður segir Sóma halda sig ótrúlega vel, tennurnar á honum séu í fínu standi og hófarnir líka en hann er ekki á járnum enda ekkert notaður lengur, hann er jú komin í lögbundið frí vegna aldurs.

„Sómi er mjög klár og mjög sérvitur,“ segir Sigríður.
En hefur eitthvað komið til tals að fella hann eða eitthvað svoleiðis?
Það hefur alveg komið til tals en maður veit ekki alveg. Maður allavega ætlar að leyfa honum að lifa út sumarið og svo sjáum við hvað við gerum. Þetta er frábær hestur og algjör gullmoli,“ segir Sigríður að lokum.
Sigurður Anton Pétursson í Ytri Skógum þekkir Sóma mjög vel og segir hann algjöran snilling en síðustu ár hefur hann verið notaður í hestaleigunni á bænum. Hann er líka með merina Jörp, sem er 30 vetra hjá Sóma.
„Þau fá bara að lifa sinn líftíma ef þau endast og virka vel. Ef þeim líður vel og þá líður þeim bara vel þar til þau geta ekki meira,“ segir Sigurður Anton.
