Veður

Reikna með tals­verðri rigningu austan­til

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður á bilinu sjö til sautján stig og verður hlýjast á Norðurlandi.
Hiti á landinu verður á bilinu sjö til sautján stig og verður hlýjast á Norðurlandi. Vísir/Vilhelm

Á Grænlandshafi er nú hægfara lægð en skil hennar þokast austur yfir landið í dag með tilheyrandi sunnankalda eða -strekkingi og rigningu. Það dregur úr vindi vestantil með kvöldinu.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Þar kemur fram að búast megi við talsverðri rigningu á Suðausturlandi og jafnvel á Austfjörðum til kvölds en þar sem ekki hafi rignt í marga daga er ólíklegt að væta verði til nema góðs fyrir gróandann.

Hiti verður á bilinu sjö til sautján stig og verður hlýjast á Norðurlandi.

„Snýst síðan í fremur hæga suðvestanátt með stöku skúrum á vestanverðu landinu í kjölfar skilannna.

Á morgun, laugardag lægir og styttir víða upp, en áfram lítilsháttar væta á víð og dreif. Hiti 8 til 14 stig. Svipað veður á sunnudag, en seinnipartinn hreyfist dálítið úrkomusvæði yfir Suðausturland,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Breytileg átt 3-8 m/s, en suðaustan 8-13 við norðausturströndina. Dálítil rigning austanlands fram eftir degi, en annars víða skúrir. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Á sunnudag: Norðaustlæg átt, 5-13 m/s og dálítil rigning á suðaustantil, en annars skúrir. Hiti 6 til 14 stig, hlýjast sunnantil.

Á mánudag: Norðlæg átt, 3-10 m/s og dálitlar skúrir og kólnar lítið eitt fyrir norðan.

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag (uppstigningardagur): Útlit fyrir breytilegar áttir með vætu á víð og dreif. Hiti yfirleitt 7 til 12 stig að deginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×