Sara lék sinn fyrsta landsleik árið 2007, enn aðeins sextán ára gömul, og á leikjametið á Íslandi með því að hafa spilað 145 leiki. Hún fór til að mynda fjórum sinnum á EM en eftir að Íslandi mistókst að komast á HM, með sáru tapi í framlengdum leik í Portúgal haustið 2022, ákvað Sara að landsliðsskórnir færu á hilluna. Sonur hennar, Ragnar Frank, var þá eins árs gamall en Sara sjálf 32 ára.
Sara segir að þessari ákvörðun hafi ekki fylgt miklir bakþankar:
„Nei. Ég var frekar sátt með mína ákvörðun varðandi landsliðið. Ég hef alltaf farið eftir magatilfinningunni og fannst þetta rétti tímapunkturinn. Ég hélt allt of mörgum boltum á lofti. Auðvitað hafa hlutirnir róast aðeins, Ragnar orðinn eldri og svona, en á sama tíma þá nýt ég þess þegar það eru landsleikjahlé að fá vikufrí með fjölskyldunni,“ segir Sara.
Viðtalið við Söru í heild má sjá hér að neðan en hún ræðir um landsliðið á mínútu 30:10.
Landsliðsþjálfarar Íslands hafa ekki reynt að fá hana til að snúast hugur og Sara hefur í vetur einbeitt sér að því að spila með liði Al Qadsiah í sádiarabísku deildinni. Hún fylgist þó með framgangi íslenska liðsins og segir allt opið fyrir liðið á Evrópumótinu í Sviss í sumar en að til þess þurfi meiri stöðugleika.
„Ég fylgist með liðinu. Mér finnst þær vera upp og niður. Þær eiga sína leiki eins og þegar þær unnu til dæmis Þýskaland í fyrra hér heima. Það var ótrúlegt – frábær leikur. En mér finnst vanta ákveðinn stöðugleika í liðið. Þetta er eiginlega alltaf það sama, um að halda bolta betur innan liðsins.
Og þegar ég horfi á leikina núna í sjónvarpi þá sé ég að það eru möguleikar til staðar. Við erum með leikmenn sem eiga að geta tekið meira við boltanum á miðjunni en mér finnst alltaf smástress, kannski smáhræðsla eða óöryggi, og við lendum oft í þessum löngu boltum. Það virkar oft en er líka takmarkað stundum, sérstaklega þegar hin liðin lesa það og taka Sveindísi út. Þá er jókerinn okkar farinn,“ segir Sara.

„Frábær árangur og hún á enn mikið inni“
Arftaki Söru sem fyrirliði landsliðsins, Glódís Perla Viggósdóttir, hefur tekið við keflinu sem fremsta knattspyrnukona landsins og nálgast óðum landsleikjametið. Glódís hefur leikið 134 landsleiki og er því aðeins ellefu leikjum frá því að jafna met Söru.
„Glódís er bara að standa sig vel. Hún hefur verið svo ótrúlega stöðug – leikmaður sem spilar alltaf vel. Og greip tækifærið sem hún fékk hjá Bayern, að taka við fyrirliðabandinu þar í þessum hópi sem er búinn að vinna núna titilinn þrjú ár í röð. Svo er hún líka alltaf góð með landsliðinu. Ótrúlega mikilvæg fyrir liðið. Þetta er frábær árangur hjá henni og hún á enn mikið inni,“ segir Sara.