Íslenski boltinn

Gabríel Aron skoraði þrennu í fyrri hálf­leik

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Keflavík fagnaði sigri og fór upp í efsta sæti deildarinnar.
Keflavík fagnaði sigri og fór upp í efsta sæti deildarinnar. keflavík

Nítján ára gamli Keflvíkingurinn Gabríel Aron Sævarsson gerði sér lítið fyrir á Akureyri og skoraði þrjú mörk í fyrri hálfleik gegn Þór, í 2-4 sigri Keflvíkinga sem settust í efsta sæti Lengjudeildarinnar.

Gabríel braut ísinn strax á fimmtu mínútu. Sindri Snær Magnússon tvöfaldaði svo forystu Keflvíkinga en Atli Þór Sindrason minnkaði muninn fyrir Þór þegar tæpur hálftími var liðinn af leiknum.

Þá tók Gabríel aftur til sinna ráða og skoraði eftir góða sókn og samspil upp vinstri vænginn. Hann skoraði svo fjórða mark Keflavíkur og fullkomnaði sína þrennu rétt fyrir hálfleik. Gabríel hefur íþróttahæfileikana ekki langt að sækja en faðir hans er Sævar Sævarsson, margfaldur Íslandsmeistari í körfubolta og sérfræðingur um íþróttina á Stöð 2 Sport. 

Ingimar Arnar Kristjánsson klóraði í bakkann fyrir Þór um miðjan seinni hálfleik en nær komust heimamenn ekki og tveggja marka tap varð niðurstaðan.

Sterkur útisigur hjá Keflavík, sem hefur unnið tvo af fyrstu þremur leikjum tímabilsins og situr í efsta sæti Lengjudeildarinnar.

Aðeins einn leikur er eftir í umferðinni, Þróttur gæti tekið toppsætið með sigri gegn Grindavík í kvöld. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×