Fyrir leikinn í dag var FHL stigalaust á botni deildarinnar en Stjarnan með þrjú stig í 7. sætinu. Austankonur gátu því með sigri jafnað Stjörnuna að stigum.
Leikurinn fór rólega af stað en Stjarnan var sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum. Andrea Mist Pálsdóttir átti til að mynda skot í þverslána um miðjan hálfleikinn og á lokamínútu fyrri hálfleiks skoraði Úlfa Dís Úlfarsdóttir síðan markið sem skildi liðin að.
Hún fékk þá boltann úti til vinstri, lék aðeins inn á miðjuna og smellti knettinum síðan upp í samskeytin fjær. Stórglæsilegt mark og staðan 1-0 í hálfleik.
FHL ógnaði lítið í síðari hálfleiknum en Fanney Lísa Jóhannesdóttir skaut hins vegar í þverslána á marki FHL og fékk síðan dauðafæri undir lokin til að gulltryggja sigurinn en Keelan Terrell í marki FHL varði vel.
Leikurinn fjaraði út og Stjarnan fagnaði að lokum góðum 1-0 sigri og fer með sigrinum upp í 5. sæti deildarinnar og jafnar Þór/KA að stigum. FHL er áfram stigalaust í neðsta sæti.