Innlent

Mikið við­bragð Gæslunnar vegna veikinda langt úti á hafi

Kjartan Kjartansson skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar á flugi. Myndin er úr safni.
Þyrla Landhelgisgæslunnar á flugi. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Virkja þarf tvær þyrlur og flugvél Landhelgisgæslunnar til þess að sækja veikan farþega um borð í skemmtiferðaskipi um 150 sjómílur austnorðaustur af landinu. Ekki er búist við að þyrla komist að skipinu fyrr en um hálf fimm í dag.

Beiðni barst frá skipstjóra skemmtiferðaskips sem var á leið frá Norður-Noregi til Landshelgisgæslunnar um aðstoð vegna veikinda farþega fyrir hádegi. Mbl.is sagði fyrst frá.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Gæslunnar, segir að skipið sé um 150 sjómílur austnorðaustur af Langanesi. Skipstjóri skipsins var beðinn um að koma því á hentugri stað þar sem skyggni var slæmt þar sem það var þegar útkallið barst.

Vegna þess hversu langt skipið er frá landi þarf að kalla út tvær þyrlur og flugvél. Önnur þyrlan verður til taks á Akureyri á meðan hin flýgur að skipinu til þess að sækja sjúklinginn. Flugvélin flýgur á undan henni til þess að finna hentugustu flugleiðina og greiða fyrir fjarskiptum, að sögn Ásgeirs.

Gripið er til svo mikils viðbúnaðar þegar þyrla þarf að fljúga meira en tuttugu sjómílur frá landi.

„Þegar það þarf að sinna sjúkraflutning sem er þetta langt frá Íslandi þarf að leggjast mikið yfir skipulag og viðbragðið er eftir því,“ segir Ásgeir.

Gert er ráð fyrir að þyrlan komi að skipinu um klukkan hálf fjögur. Farþeginn verður svo fluttur til baka á sjúkrahús á Íslandi.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×