Í þættinum Ísland í dag rekur Grétar söguna af því þegar Loftleiðir þurftu að endurnýja flugflotann og skipta út gömlu fjörkunum, Skymaster-vélunum, og fá í staðinn flugvélar með jafnþrýstiklefa sem gátu flogið ofar flestum veðrum.

Árið 1959 bauðst Loftleiðum að kaupa notaðar DC 6B-flugvélar frá Pan Am. Fjármögnun hafi hins vegar brugðist á síðustu stundu.
„Svo faðir minn, Kristján Guðlaugsson, var andvaka. Svo fór hann á göngu, þá var nú Reykjavík minni, og í Bankastræti hitti hann Þorvald Guðmundsson,“ segir Grétar.
„Hann sér að Kristján er eitthvað áhyggjufullur og spyr hann hvað sé að. Og hann segir honum það. „Hvað vantar þig mikið“ segir Þorvaldur.“
Kristján hafi þá nefnt ákveðna tölu, sem var há fjárhæð. Þorvaldur hafi hins vegar spurt á móti hvort hann vildi ekki frekar tvöfalt hærri fjárhæð.
„Og þetta varð til þess að þeir gátu keypt sexurnar, DC 6B,“ segir Grétar.

Hann greinir einnig frá því hvernig pólitíkin blandaðist inn í spilið. Ráðamenn Flugfélags Íslands hafi beitt áhrifum sínum innan Sjálfstæðsflokksins til að reyna að stöðva þessi flugvélakaup Loftleiða.
Ólíkt flugmönnunum í stjórn Loftleiða hafi Kristján Guðlaugsson hins vegar einnig verið vel tengdur inn í Sjálfstæðisflokkinn og fengið Bjarna Benediktsson, síðar forsætisráðherra, í lið með sér til að tryggja innflutningsleyfi fyrir flugvélunum.
„Kristján minn! Trúum við Sjálfstæðismenn ekki á frjálst framtak? Ég skal gefa ykkur leyfið,“ segir Grétar að Bjarni hafi þá sagt við Kristján.
Frásögn Grétars í þættinum Ísland í dag er hér:
Ljósmynd frá Keflavíkurflugvelli frá komu þriðju Rolls Royce-vélar Loftleiða árið 1965 sýnir Grétar ásamt foreldrum sínum en þar eru einnig Alfreð Elíasson og kona hans, Kristjana Milla Thorsteinsson, að taka á móti Jóhannesi Markússyni flugstjóra og áhöfn hans. Grétar var þá orðinn framkvæmdastjóri afgreiðslufyrirtækis Loftleiða á flugvellinum.

Hér er styttra myndskeið úr þættinum um kaupin á sexunum: