Atvinnulíf

Vikan sem vex og vex: „Magatilfinningin er jafn­vel mikil­vægust“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það má svo sannarlega tala um Iceland Innovation Week sem vikuna sem vex og vex. Því þegar Edda Konráðsdóttir og meðstofnandi hennar fóru af stað með hátíðina Covid árið 2021, voru gestir um 100 talsins á netinu og um tíu talsins á staðnum, enda samgöngubann. Í þessari viku sækja um 3500 viðburði hátíðarinnar.
Það má svo sannarlega tala um Iceland Innovation Week sem vikuna sem vex og vex. Því þegar Edda Konráðsdóttir og meðstofnandi hennar fóru af stað með hátíðina Covid árið 2021, voru gestir um 100 talsins á netinu og um tíu talsins á staðnum, enda samgöngubann. Í þessari viku sækja um 3500 viðburði hátíðarinnar. Vísir/Anton Brink

„Í fyrsta lagi myndi ég segja fólki að tala um hugmyndina sína við einhvern. Sem oft er erfiðast en mjög gott fyrsta skref. Enda allt annað að byggja eitthvað upp einn og lokaður af,“ segir Edda Konráðsdóttir stofnandi Innovation Week sem nú stendur yfir.

Og er gjörsamlega að finna út um allan bæ!

Edda áætlar að um 3500 manns muni sækja hátíðina að þessu sinni.

Hvað voru gestirnir margir á fyrstu hátíðinni?

„Ætli þeir hafi ekki verið um 100 í gegnum streymi og síðan tíu manns á staðnum enda samgöngubann í gildi þá,“ segir Edda og skellihlær.

Því já, fyrsta hátíðin var einfaldlega haldin korteri eftir að Covid skall á; Hver hefði getað séð það fyrir?!

Í fjölmiðlum hefur Edda sagt frá því hvernig hún lifir og hrærist í heimi nýsköpunar. Sem hún þó vissi ekkert um fyrr en um það leyti sem hún var að klára viðskiptafræðina.

„Fram að því var ég mikið að vasast í tísku, vann um tíma í JÖR og hafði sérstaklega gaman að öllu sem tengdist markaðssetningu á tísku og fleira. Ætli ég hafi ekki svolítið séð fyrir mér að þróast áfram í þeim geira á þeim tíma,“ segir Edda; Oggulítið hugsi.

Nokkrum árum síðar hefur hún sérhæft sig í að láta drauma rætast; Sinn eiginn eða sem ráðgjafi fyrir list- og sprotaumhverfið. Því til viðbótar við Iceland Innovation Week er Edda ein af teyminu í ráðgjafafyrirtækinu Milk & Kleina sem sérhæfir sig í viðskiptaþróun sprotafyrirtækja.

Það má alveg segja að Edda sé svolítið með rekstur og frumkvöðlaeðli í genunum. Enda þekktu margir pabba hennar, Konna heitinn í Litróf. Eða afa og föðurbræður; Baldvin og Þormóð Jónssyni. Móðuramma og afi hennar voru líka miklir frumkvöðlar; byggðu og ráku Álfheimakjarnann á sínum tíma. Edda segist hafa tekið margt frá föður sínum; meðal annars það að byggja upp frá hjartanu. Móðir Eddu er Anna Sig­urðardótt­ir.

Með rekstur í genunum

Þótt Edda virðist hin rólegasta þegar viðtalið er tekið, er allt á fullu alls staðar. Ekki aðeins að Iceland Innovation Week sé við það að hefjast, heldur eru hún og barnsfaðir hennar Gunnar Helgi Steindórsson nýbúin að kaupa sér hæð á Tómasarhaga í vesturbænum sem þau eru að gera upp.

Saman eiga þau soninn Steindór Loga, sem er tveggja ára.

„Það er einhvern veginn allt að gerast á sama tíma,“ segir Edda og hlær.

„Í augnablikinu búum við hjá tengdó á meðan við erum í framkvæmdum á nýju íbúðinni, Gunnar Helgi er líka að skipta um vinnu, hátíðin mín að hefjast og auðvitað þarf einn tveggja ára sitt,“ bætir hún brosandi við.

En hvaðan kemur þessi áhugi á nýsköpun og rekstri? Ertu kannski með einhvern rekstur í genunum?

„Já það má segja það,“ svarar Edda stolt.

„Því pabbi minn var Konráð Jónsson, framkvæmdastjóri Litróf prentsmiðju sem hann rak á sömu kennitölunni í 40 ár. Pabbi lést árið 2023 úr krabbameini en oft á minni vegferð hugsa ég til hans þegar kemur að rekstri og hvernig hans nærvera og nálgun var í vinnu,“ segir Edda og bætir við:

Pabbi þekkti alla tíð alla viðskiptavini sína og keyrði persónulega út allar sendingar sem þurfti að fara með. 

Hverju sem hann var að vinna að, var allt þetta mannlega í fyrirrúmi hjá honum. 

Ég er sannfærð um að þessa vinnueljusemi fæ ég frá honum og að hafa lært að byggja upp með hjartanu.“

Frumkvöðlagenin finnast líka í Eddu. Því afi hennar var Jón Haukur Baldvinsson, en hann stóð fyrir því ásamt elsta syninum Baldvini að flytja hljómsveitina Kinks til landsins árið 1965. Kinks spilaði í Austurbæjarbíó fyrir fullu húsi í mörg skipti en að öllu jafna er talað um þessa tónleika sem fyrstu alvöru rokktónleikana á Íslandi.

„Þeir spiluðu að mig minnir 13 tónleika í röð í Austurbæ fyrir troðfullu hús og í millitíðinni borðuðu þeir ýsu hjá Ömmu Dúddu,“ skrifaði afabarnið og alnafni Jóns Hauks löngu síðar í bloggi.

Afi og amma Eddu í móðurætt voru líka frumkvöðlar, Dóra María Baldvinsdóttir og Sigurður R. Ingimundarson. En í allt öðrum geira því þau byggðu og stofnuðu Álfheimakjarnann sem við höfum öll þekkt nú í áratugi á horni Langholtsvegar og Álfheima.

„Afi var stórkaupmaður og einn sá fyrsti í Reykjavík en í Álfheimum lék ég mér oft í algjörum ævintýraheimi,“ segir Edda og lýsir því hvernig innangengt var á milli Álfheimabúðarinnar og íbúðarinnar þar sem afi hennar og amma bjuggu ásamt risastórum lager og kjallara sem var téður ævintýraheimur. Löngu síðar seldu þau frá sér húsnæðið smám saman og þá fóru allar rekstrareiningarnar að verða meira aðskildar og í líkingu þess sem við þekkjum í dag.

Edda lumar á mörgum góðum ráðum fyrir frumkvöðla sem vilja láta draumana rætast. Meðal annars að vera ekki feimin við að ræða hugmyndir sínar við annað fólk og ekki að reyna að fá fjárfesta of snemma. Edda hefur líka lært að á endanum er það oft magatilfinningin sem skiptir mestu máli.Vísir/Anton Brink

Edda er sjálf fædd árið 1992 í Reykjavík, ólst upp í Breiðholtinu og ætlaði sér upphaflega með vinkonunum í Menntaskólann við Hamrahlíð.

„En á síðustu stundu ákvað ég að færa aðalvalið mitt yfir í Versló.“

Hvers vegna?

„Ég veit það ekki. Magatilfinningin mín í raun sagði mér að gera það. Og ég er mjög fegin að hafa gert það því ég fékk rosalega mikið út úr því námi og því félagsstarfi. Sama má segja um félagsstarfið í Háskóla Íslands þegar ég var í viðskiptafræðinni því þá dembdi ég mér á fullt í Röskvu, var fulltrúi í Stúdentaráði og fleira,“ segir Edda og bætir við:

Ég hef reyndar oft sagt að fyrsta reynslan mín af því að reka fyrirtæki sé frá félagsstarfinu komið í HÍ og Versló. 

Þar sem ég lærði vel að standa fyrir og skipuleggja allskyns viðburði og þurfa að standa fyrir einhverju sem líkja má við rekstur á fyrirtæki.“

Það er mjög skemmtilegt að heyra hvernig Edda setur í samhengi að taka virkan þátt í félagsstörfum í framhaldsskóla og háskóla og því að reka fyrirtæki. Efri myndir eru frá Röskvuárum Eddu í HÍ, en neðri myndir sýna KLAK og Startup tímabilið hennar og síðan er mynd frá upphafstíma Innovation Week.

Þegar hugmyndin varð til

Edda segir að það hafi í raun verið ákveðin slysni að hún rambaði inn í veröld nýsköpunar.

„Ég var að vinna í lokaritgerðinni minni og með þessa dæmigerðu frestunaráráttu. Sem fékk mig til þess að bjóða mig fram sem sjálfboðaliða á tölvuleikjaráðstefnu því það er einmitt það sem maður gerir sem háskólanemi sem er að fresta því að skrifa ritgerðina sína,“ segir Edda og hlær.

Ráðstefnan opnaði nýjan og áhugaverðan heim fyrir Eddu. Sem segist hafa fengið mikinn innblástur yfir því hvernig heimur nýsköpunar og tækni liti út.

„Um haustið hitti ég Salóme Guðmundsdóttur sem þá var framkvæmdastjóri KLAK. Ég hitti hana í ræktinni og þar sem hún var á hlaupabrettinu sagði hún við mig: Sendu mér ferilskránna þína.“

Sem Edda gerði og hóf störf hjá KLAK stuttu síðar. Nánar tiltekið árið 2015.

Síðan þá, hefur Edda einfaldlega lifað og hrærst í þessum heimi.

„Og meira að segja Gunnar maðurinn minn líka því hann vann við vistkjötshluta ORF Líftækni en var að skipta um vinnu núna og að byrja hjá mjög spennandi nýsköpunarfyrirtæki sem heitir PLAIO.“

Að vinna með sprotum og frumkvöðlum, í stuðningi, að hjálpa þeim að stofna sín eigin fyrirtæki, koma sér á framfæri, leita fjárfesta og svo framvegis, var starfsvettvangur sem Edda einfaldlega elskaði.

„Ég segi reyndar oft við sprota: Ekki fara að leita af fjárfestum fyrr en þú raunverulega þarft þess. Byrjaðu á því að reyna að byggja upp eins mikið og þú getur sjálfur. Þegar fólk spyr mig ráða um hvernig það geti komist í kynni við fjárfesta spyr ég oft á móti: Hvers vegna þarftu þess núna?“

Eitt fannst Eddu þó vanta.

„Árið 2015 fór ég til Finnlands á stóra nýsköpunarráðstefnu sem heitir Slush í fyrsta sinn. Og þvíík stemning!“ segir Edda sem einfaldlega segist aldrei hafa upplifað annað eins.

„Það var allt í neon ljósum og allt. Hátíðin var í raun eins og risastórt rave-partí,“ segir Edda upprifin og ljómar við frásögnina eina.

Fleiri ráðstefnur fylgdu í kjölfarið. Á Norðurlöndunum og eins nýsköpunar- og listahátíðin South by Southwest í Bandaríkjunum.

„Sú hátíð blandar saman nýsköpun og list því sú hátíð er tónlistarhátíð líka. Og ég myndi alveg segja að hún sé fyrirmynd af þeirri stemningu sem við viljum byggja upp á Iceland Innovation Week.“

Eftirspurnin fyrir hátíð á Íslandi var til staðar.

„Það eru auðvitað margir flottir viðburðir á Íslandi fyrir sprota og nýsköpunarumhverfið. En á þessum stóru ráðstefnum erlendis spurði fólk oft: Hvað með Ísland? Eruð þið með eitthvað sambærilegt?“

Úr varð að Edda og Melkorka Sigríður Magnúsdóttir stofnuðu Iceland Innovation Week árið 2020.

En veltir þú því aldrei fyrir þér að stofna eitthvað hefðbundið sprotafyrirtæki og fara í þess lags rekstur?

Jú svo aldeilis svarar Edda að bragði.

„Það voru alls kyns hugmyndir sagðar upphátt og ræddar, áætlanir gerðar og sótt um styrki til Rannís. Iceland Innovation Week er þó hugmyndin sem varð að veruleika.“

Dagskrá Iceland Innovation Week fer fram um allan bæ og svo sannarlega má segja að atvinnulífið taki mikinn þátt í hátíðinni. Einkageirinn fjármagnar hátíðina meira og minna en Edda segir alveg tilefni til þess að stjórnvöld taki virkari þátt. Svona viðburðir séu víða haldnir erlendis. Hér eru örfáar myndir af hátíðinni sem nú stendur yfir.

Vikan sem vex og vex

Dagskrá Iceland Innovation Week er vægast sagt glæsileg. Ekki aðeins getur fólk sótt fyrirtæki og stofnanir heim á viðburði fram á föstudag, heldur eru líka viðburðir þar sem reynslumiklir aðilar deila sínum sögum. Til dæmis varðandi það að kynna nýsköpunarhugmynd fyrir fjárfestum.

Fyrirlesararnir eru innlendir og erlendir, margir hverjir þekkt nöfn.

Allt um Innovation Week má sjá HÉR.

Til viðbótar við fría viðburði hjá fyrirtækjum og stofnunum, er aðal sviðsdagskrá hátíðarinnar í Kolaportinu ásamt því að vera í í Grósku, á vinnustofu Kjarvals og á Hafnartorgi. Flestir viðburðir eru ókeypis en á vefsíðu vikunnar er hægt að kaupa miða á aðal sviðsdagskránna.

Sem betur fer er Edda heppin með eiginmanninn.

„Hann sér eiginlega um allt, gerir og græjar á meðan ég er á hvolfi í þessu og geðheilsan kannski orðin svolítið völt,“ segir hún og hlær.

Ljóst er að Iceland Innovation Week er hátíð sem er komin til að vera. Svo hratt hefur hún stækkað og eflst síðan 2020.

En hvernig er tekjumódelið?

„Einkageirinn fjármagnar hátíðina um 80% en síðan hafa ráðuneyti, Íslandsstofa og Reykjavíkurborg líka staðið við bakið á okkur og fjármagnað um 20%. Við erum samt að tala fyrir því að Innovation Week hljóti meiri stuðning frá hinu opinbera þannig að rekstrargrundvöllurinn sé öruggari fyrir svona stóran viðburð eins og Iceland Innovation Week er orðin.“

Edda segir um 900 miða selda á lokuðu viðburðina og það er því kannski ekkert að undra að það sé allt á fullu alls staðar hjá Eddu þessa dagana.

Það er vægast sagt allt á fullu í lífi Eddu þessa dagana; Hún og sambýlismaðurinn eru að flytja og gera upp nýja íbúð, hann að skipta um vinnu, hún á hvolfi vegna Iceland Innovation Week og síðan er það tveggja ára sonurinn. Edda segir skötuhjúin svo skipulögð að hún þori eiginlega ekki að ljóstra því upp hvað þau setja í excel.Vísir/Anton Brink

Magatilfinningin mikilvæg

En lumar þú á fleiri góðum ráðum fyrir fólk sem vill láta draumana rætast og fara í nýsköpun?

„Já ég hvet fólk hiklaust til að reyna að hitta fyrirmyndir úr geiranum. Ég hef til dæmis leitað mikið til margra kvenfyrirmynda og eitt af því sem er svo einkennandi fyrir nýsköpunarheiminn er hversu tilbúið fólk er til að styðja við sprota,“ segir Edda og bætir við:

„Hvað er líka það versta sem getur gerst? Ef þú býður einhverjum að hittast í kaffi til að spjalla saman getur ekkert verra gerst en að viðkomandi segi Nei.“

En þótt Edda mæli með því að fólk vinni að hugmyndinni sinni eins lengi og það getur án fjárfesta, segir Edda alla vinnu með tengslanetið af hinu góða.

„Byrjið endilega á því að reyna að kynnast fjárfestum áður en þið þurfið fjármagn. Það þarf ekkert að bíða eftir því þar til komið er að fjármögnun.“

Hvað með þriðju vaktina og að púsla saman vinnunni og einkalífinu?

„Ég er rosalega heppin,“ segir Edda með tilvísun í sambýlismanninn.

„Þótt eflaust sé þriðja vaktin enn meira á könnu kvenna svona almennt.“

Edda segir hana og Gunnar þó búa vel að því að eiga gott stuðningsnet í fjölskyldunni.

Og þau eru líka algjörir skipulagsgúrúar.

„Ég myndi ekki einu sinni þora að segja þér hvað við setjum í excel,“ segir hún og skellihlær.

En er eitthvað sem þú myndir mæla með að fólk varist?

Já, ég myndi alltaf segja fólki að fylgja magatilfinningunni sinni eftir. Því þegar ég horfi til baka sé ég hvernig mistökin sem ég hef lært af eru oftast mistök gerð á þeim mómentum þar sem ég fer gegn magatilfinningunni minni. 

Magatilfinningin er jafnvel mikilvægust.“


Tengdar fréttir

„Ég held að þetta sé bara svo góður kokkteill“

,,Ég hef alltaf fílað litgreiningu og forvinnslu prentunar og fagið bara lá fyrir mér,“ segir Konráð Ingi Jónsson framkvæmdastjóri og aðaleigandi Litrófs. Litróf er 77 ára gamalt fyrirtæki sem alltaf hefur verið rekið á sömu kennitölu. Fyrirtækið hefur Konráð rekið í 37 ár. Hann lærði offsetljósmyndun í Myndamótum Morgunblaðsins sem þá var og hét.

Breytist hratt næstu árin hvaða fyrirtæki teljast stærst og best

„Á næstu tíu árum er verið að tala um að um 40% fyrirtækja sem nú eru á lista S&P500 stærstu fyrirtækja heims verði skipt út. Það sem þetta segir okkur er að fyrirtæki þurfa alvarlega að fara að skoða hvernig þau geta innleitt nýsköpun sem eðlilegan hluta af sinni starfsemi,“ segir Davor Culjak stofnandi Resonate Digital.

Hittust á stefnumótaappi og blása nú lífi í týndar sögur

„Við erum að blása lífi í allar þessar týndu sögur,“ segir Jón Orri Sigurðarson annar af tveimur stofnendum fyrirtækisins Guyde sem nú vinnur að því að þróa leiðsöguapp sem svo sannarlega gæti komið Íslendingum og öðrum til góða á ferðalögum um landið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×