Viðskipti innlent

Hafa þegar skilað nettó­bindingu en tafir á stærri föngunar­stöð

Kjartan Kjartansson skrifar
Teikning af Mammoth-kolefnisföngunarveri Climeworks á Hellisheiði. Hægar hefur gengið að reisa verið en til stóð vegna tæknilegra vandamála.
Teikning af Mammoth-kolefnisföngunarveri Climeworks á Hellisheiði. Hægar hefur gengið að reisa verið en til stóð vegna tæknilegra vandamála. Carbfix

Svissneska fyrirtækið Climeworks sem fangar kolefni beint úr lofti á Hellisheiði segir tæknileg vandamál hafa tafið fyrir framkvæmdum við annað kolefnisföngunarver þess. Upphaflegt föngunarver þess hafi þegar skilað nettó kolefnisbindingu.

Nýsköpunarfyrirtækið Climeworks er viðfangsefni umfjöllunar í Heimildinni í dag þar sem kemur fram að fyrirtækið hafi ekki enn náð þeim afköstum í föngun kolefnis sem stefnt var að og að losun af starfseminni sé enn meiri en binding. 

Svissneska fyrirtækið reisti Orca-föngunarverið á Hellisheiði árið 2021 og talað hefur verið um að það geti fangað fjögur þúsund tonn koltvísýrings á ári að hámarki. Climeworks er í samstarfi við Carbfix sem fargar kolefninu sem fangað er beint úr lofti í jörðu með tækni sem íslenska fyrirtækið þróaði á Hellisheiði.

Enn er unnið að því að byggja Mammoth, mun afkastameira föngunarver, sem á að geta afkastað allt að 36.000 tonnum á ári. Aðeins er þó búið að byggja tólf af 72 föngunarvélum þess vers vegna tafa sem urðu af tæknilegum ástæðum, að því er segir í skriflegu svari Climeworks í Sviss við fyrirspurn Vísis.

Varðandi nettólosun af starfseminni segir Climeworks í svari sínu að fyrirtækið haldi utan um og skili skýrslum um losun yfir allan líftíma verkefnsins með gegnsæjum hætti. 

Sú losun nái meðal annars til þeirrar sem falli til við byggingu versins, orkunotkun og rekstur. Umfjöllun Heimildarinnar byggðist þannig að hluta á gögnum frá vottunarfyrirtæki sem Climework vinnur með.

„Orca hefur þegar fargað meira kolefni neðanjarðar en losað hefur verið við verkefnið, hún hefur þannig þegar náð neikvæðri losun. Mammoth á eftir að taka aðeins lengri tíma vegna þeirra tafa sem við höfum lýst,“ segir í svarinu.

Tekur tíma að byggja starfsemina upp

Heimildin segir að Orca-stöðin hafi mest fangað um þúsund tonn frá því að starfsemin hófst þrátt fyrir yfirlýsingar um að hún geti annað fjögur þúsund tonnum árlega.

Í svarinu við fyrirspurn Vísis segir Climeworks að þau allt að fjögur þúsund tonn sem hafi verið nefnd sem afkastageta Orca-stöðvarinnar sé fræðileg hámarksafkastageta versins í fullri vinnslu og stöðugum rekstri. Það byggist á reynslunni af umfangsminni starfsemi og niðurstöðum á tilraunastofum.

„Líkt og með öll önnur flókin iðnaðarinnviði sem er verið að byggja í fyrsta skipti tekur tíma að byggja starfsemina upp og það er meðvitað gert smátt og smátt sem leyfir okkur að fínpússa og hámarka afköstin. Til að byrja með voru afköstin náttúrlega minni en málaflið (e. nameplate capacity),“ segir í svarinu.

Söfunarkassar Climeworks sem fyrirtækið notar til þess að fanga kolefni beint úr andrúmslofti.Stöð 2/Bjarni

Fjögur þúsund tonna afkastagetan hefur ítrekað verið nefnd í tilkynningum um Orca-verið. Climeworks segir í svarinu að fyrirtækið hafi lært að útskýra að hámarksföngunargeta náist ekki alltaf þar sem verið sé ekki alltaf starfandi á fullum afköstum, meðal annars út af veðri og viðhaldi. Þá tapist alltaf einhver koltvísýringur við vinnsluna.

„Að þessu gefnu höfum við ekki náð hámarks fræðilegum afköstum fjögur þúsund tonnum á ári,“ segir í svarinu.

Nýlegar umbætur á Orca-verinu bendi til að hver föngunarvél í verinu geti fangað 1,1 tonn af koltvísýringi á dag við kjöraðstæður. Það jafngildi um 3.200 tonnum á ári fyrir þær átta föngunarvélar sem eru í verinu.

Galli og tafir á sendingum á efni

Tæknileg vandamál eru sögð hafa sett strik í reikninginn með framgang Mammoth-versins. Heimildin segir að á fyrstu tíu mánuðunum eftir að Mammoth var tekin í notkun hafi aðeins rúm hundrað tonn koltvísýrings verið fönguð. 

Í svari Climeworks segir að galli hafi komið fram í fyrstu sendingu af föngunargeymum sem fyrirtækið notar. Einnig hafi tafir orðið á sendingum af íseygu efni sem notað er til þess að fanga koltvísýringinn úr lofti.

Til að bregðast við því segist fyrirtækið hafa farið sér varlega og lagt áherslu á gæði. Aðeins þau kerfi sem standist kröfur um afköst hafi verið tekin í notkun þannig að hægt væri að tryggja áreiðanleika og að hægt verði að skala starfsemina upp frekar.

„Því miður þýðir það að við erum nokkuð á eftir upphaflegri og metnaðarfullri tímalínu okkar sem við sögðum frá,“ segir í svarinu.

Nú sé stefnt að því að Mammoth verði tekið í fulla notkun einhvern tímann frá næsta ári til byrjunar árs 2027.

Hafa sex ár til þess að uppfylla pantanir einstaklinga

Climeworks býður meðal annars áskriftarþjónustu fyrir einstaklinga sem vilja styrkja kolefnisförgun. Einn viðmælenda Heimildarinna lýsir óánægju með að ekkert hafi enn verið bundið í hans nafni ennþá. Hann telji að það gæti tekið áratugi þar til starfsemin verði orðin nógu umfangsmikil þess þess að hann fái eitthvað fyrir sinn snúð.

Fyrirtækið segir í svari sínu að áskriftarlíkan þess sé hannað til þess að skala það upp samhliða starfseminni. Áskrifendur styðji með framlagi sínu bæði núverandi föngun og förgun og framtíðarföngun. Tímalínan sé gerð þeim ljós. Skilmálar þjónustunnar gera ráð fyrir að Climeworks hafi sex ár til þess að fanga kolefni samkvæmt pöntun einstaklinga.

Borteigar Carbfix þar sem kolefni er dælt niður í jörðu þar sem það binst í steindir varanlega. Climeworks á í samstarfi við Carbfix á Hellisheiði þar sem Carbfix tekur við koltvísýringi sem svissneska fyrirtækið fangar og fargar í jörðu með tækni sinni.Vísir/Arnar

„Kolefnisföngunarferlið fyrir áskriftir tekur nokkur ár, en ekki áratugi, og áskrifendur eru upplýstir um hvenær afhendingar er að vænta,“ segir í svarinu.

Þannig hafi fyrstu áskrifendurnir þegar fengið staðfestingu á kolefnisföngun í þeirra nafni frá fyrirtækinu. Fyrirtækið hafi hins vegar tekið gagnrýni viðmælanda Heimildarinnar til sýnt og fjárfest í öflugri samskiptum við viðskiptavini.

Kolefniföngun og förgun talin nauðsynleg gegn loftslagsvá

Sterklega er ýjað að því í umfjöllun Heimildarinnar að kolefnisföngun og förgun almennt, sem loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna telur nauðsynlega til að loftslagsmarkmið náist, sé svikamylla. Blaðið hefur ítrekað fjallað um önnur kolefnisförgunarverkefni á Íslandi með neikvæðum formerkjum, þar á meðal Carbfix og Running Tide.

Stöðvun á losun gróðurhúsalofttegunda er brýnasta loftslagsaðgerðin til þess að koma í veg fyrir enn alvarlegri loftslagsbreytingar á jörðinni. Kolefnisföngun og förgun er engu að síður talin nauðsynleg aðgerð til þess að mannkynið geti náð loftslagsmarkmiðum sínum. 

Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar hefur sagt slíkar aðferðir sérstaklega mikilvægar til þess að jafna út losun frá uppsprettum þar sem erfitt er að koma í veg fyrir hana, til dæmis frá ýmsum iðnaðarferlum þar sem koltvísýringur losnar við efnahvörf.

Vegna þess að koltvísýringur safnast fyrir í lofthjúpnum verður kolefnisförgun einnig nauðsynleg til þess að vinda ofan af hlýnun fari hún fram yfir þau mörk sem mannkynið hefur sett sér og virkar óumflýjanleg að gerist miðað við áframhaldandi losun gróðurhúsalofttegunda.


Tengdar fréttir

Furðar sig á blekkingar­brigslum Heimildarinnar

Framkvæmdastjóri Carbfix segist undrandi á umfjöllun Heimildarinnar þar sem fyrirtækið er sakað um að blekkja Hafnfirðinga um starfsemi sína. Umfjöllunin sé uppfull af rangfærslum sem vegi að heiðri starfsfólks fyrirtækisins.

Koltvísýringur sogaður úr andrúmsloftinu á Hellisheiði

Í dag hófst starfsemi í fyrstu og stærstu heildstæðu lofthreinsi- og förgunarstöð í heiminum skammt frá Hellisheiðarvirkjun. Stöðin getur fangað allt að fjögur þúsund tonn af koltvísýringi úr andrúmsloftinu á ári og auðvelt er að auka afköstin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×