Eldar Ástþórsson, vörumerkjastjöri tölvuleikjaframleiðandans CCP, segir að um þjóðfund EVE-spilara að ræða. Viðburðir voru á dagskrá frá fimmtudeginum síðasta og fram á gærkvöld. Dagskráin samanstóð af fyrirlestrum, pallborðsumræður um efnahagsmál, sagnfræði og stjórnmál innan EVE-heimsins og lauk svo með pompi og prakt í heljarinnar veislu sem stóð fram á gærnótt.

„Við vorum með tvo gestafyrirlesara, einn frá NASA sem er líka EVE Online spilari um það hvernig hægt er að útfæra EVE-heiminn í raunveruleikanum. Vísindamaður frá Oxford talaði um vísindin á bak við svarthol,“ segir Eldar.

Á hátíðinni kynnti CCP einnig nýjungar í vöruþróun sinni og hægt var að prufuspila væntanlega leiki sem fyrirtækið er með í vinnslu.

„Við kynntum nýja viðbót við EVE sem heitir Legion og settum mjög mikið púður í það, vorum með stóran kynningartrailer í kringum það sem kom út á föstudaginn. Við fengum mjög góð viðbrögð bæði frá blaðamönnum og spilurum. Við kynntum leiki sem eru í þróun hjá okkur, EVE Frontier og EVE Vanguard og vorum að tala um það sem er væntanlegt í þeim,“ segir Eldar.
Herlegheitunum lauk svo í gærkvöld með stórri veislu þar sem hljómsveitin FM Belfast steig á stokk meðal annarra tónlistarmanna.





