Í frétt AP um kosningarnar kemur fram að PAP hafi hlotið 87 af 97 þingsætum þingsins. Flokkurinn fékk 65,6 prósent atkvæða sem er um fjórum prósentustigum meira en í síðustu kosningum árið 2020 þegar flokkurinn fékk 61 prósent atkvæða. Í frétt AP segir að glaðir kjósendur flokksins hafi safnast saman og veifað fánum og fagnað sigrinum.
Wong er einnig fjármálaráðherra landsins og sagðist þakklátur traustinu sem hann fékk. Hann sagði niðurstöðuna setja Singapúr í betri stöðu alþjóðlega en tollahækkanir Trump hafa haft slæm áhrif á efnahagsmál landsins.

Pritam Singh, leiðtogi Verkamannaflokksins, sem er í minnihluta með tíu þingsæti, sagði þetta hafa verið erfiða keppni en lofaði að halda áfram að berjast fyrir jafnara þingi.
Í frétt AP segir að utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Marco Rubio, hafi þegar sent Wong hamingjuóskir með sigurinn og hafi sagst hlakka til áframhaldandi samstarfs.