Skoðun

Em­bætti þitt geta allir séð

Ragnheiður Davíðsdóttir skrifar

Ungur drengur frá Columbiu kynnist barnabörnum mínum í skólanum. Hann var hér á landi með ofbeldisfullum föður sínum og þráði ekkert heitar en eðlilegt fjölskyldulíf og öryggi. Faðir hans flúði glæpagengi í Columbíu sem höfðu sýnt honum banatilræði vegna mútugreiðslna sem hann vildi ekki borga. Drengurinn kom hingað til lands með föður sínum og varð að þola gróft ofbeldi frá honum. Málið fór fyrir barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar - en engu að síður var hann tekinn, án fyrirvara, á miðjum skóladegi og fluttur með einkaflugvél til Madrídar og þaðan til Columbiu. Þá var hann 16 ára barn. Faðir hans yfirgaf hann á flugvellinum og lét sig hverfa. Móður hans hefur ekki tekist að ná í í tvö ár. Hans beið ekkert annað en gatan, þar til sonur minn flaug á eigin kostnað til Columbiu og flutti hann heim á túristaleyfi sem varði í þrjá mánuði. Nú hefur Útlendingastofnun vísað honum aftur úr landi - þrátt fyrir að hann hafi ekki í nokkur hús að venda. Hér á landi bíður ástrík fjölskylda milli vonar og ótta um örlög hans; fjölskylda sem vill veita honum örugga framtíð. Íslensk yfirvöld þurfa ekki að greiða eina krónu með honum vegna þess að hans bíður öruggt heimili. Þessi ungi drengur er einkar vel gerður, hjartahlýr og vandaður. Fjölskylda sonar míns elskar hann eins og líffræðileg börn sín og við, stórfjölskyldan, einnig. Hvernig stendur á því að ekki er farið eftir ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna? Hvar er mannúðin sem svo rækilega var tíunduð í stefnuskrá stjórnarflokkanna? Sjálf hef ég haft samband við talsmenn þeirra, auk barnamálaráðherra en engin svör fengið.

Upp í hugann koma ljóðlínur Einars Benidiktssonar: “Embætti þitt geta allir séð en ert þú sem berð það maður”.

Hvaða lög gilda á Íslandi? Er engin mannúð sem gildir? Lög eru auðvitað nauðsynleg - en hvaða lög ganga lengur en Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna?

Höfundur er íslenskufræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×