Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að fangelsi landsins væru sprungin og full af fólki sem ekki ætti heima þar, til dæmis einstaklingum sem á að vísa úr landi og fólki með alvarlegar geðraskanir.
Hælisleitendur sem hafa fengið synjun á umsókn um dvalarleyfi og fara ekki sjálfviljugir úr landi eru vistaðir í fangelsi þar sem þeir bíða brottvísunar, stundum vikum saman.
Hælisleitendur dvelji við óviðunandi aðstæður
Í tilkynningu frá Afstöðu, félags fanga á Íslandi, segir að hælisleitendurnir sem bíði brottvísunar dvelji við óviðunandi aðstæður vikum saman í fangageymslum lögreglu.
„Þar eru þeir oft einangraðir án reglubundinnar útivistar og í sumum tilvikum handjárnaðir við svokallað „belti" þegar þeir fá takmarkaða útivist.“
„Það vekur sérstaka athygli Afstöðu að íslenskir dómarar hafa ítrekað úrskurðað um slíka vistun án þess að metið sé hvort vægari úrræði geti komið að notum. Með því bera dómarar, lögum samkvæmt, ábyrgð á þeirri vanvirðandi meðferð sem þeir sæta,“ segir í tilkynningu frá Afstöðu.
Dómsmálaráðherra hefur sagt það óboðlegt að fólk sem bíður brottvísunar en hefur ekki brotið af sér dúsi í fangelsi meðan það bíður. Á sama tíma sé ekki pláss fyrir aðra sem bíða þess að hefja afplánun.
Vinna sé hafin við úrbætur meðal annars með leit að húsnæði sem hægt væri að nýta til bráðabirgða. Til greina kæmi að horfa til Svíþjóðar þar sem þekkist að fangar deili klefa.