Íslenski boltinn

Leik­menn ÍBV hjálpuðu til við að færa sætin á milli valla í Eyjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þessi þrír leikmenn Eyjaliðsins komu sterkir inn við að undirbúa áhorfendastæðin fyrir næsta heimaleik.
Þessi þrír leikmenn Eyjaliðsins komu sterkir inn við að undirbúa áhorfendastæðin fyrir næsta heimaleik. ÍBV Knattspyrna

Eyjamenn eru að setja gervigras á heimavöll sinn við Hástein og spila því ekki á Hásteinsvelli á næstunni. Liðið spilar þess í stað á Þórsvellinum sem er rétt hjá.

ÍBV hefur spilað tvo fyrstu deildarleiki sína á útivelli en spilaði fyrsta heimaleikinn í 32 liða úrslitum Mjólkurbikarsins um helgina þar sem Eyjaliðið vann frábæran 3-0 sigur á Víkingum.

Þórsvöllurinn hafði ekki aðstöðu fyrir áhorfendur en Eyjamenn vinna þessa dagana í því að bæta úr því.

Nú síðast var farið í því að losa öll sætin úr stúkunni á Hásteinsvellinum og færa þau yfir á Þórsvöllinn.

Þar var búið að koma fyrir brettum sem verða tímabundin lausn.

Næsti heimaleikur ÍBV er á móti Fram í Bestu deildinni á Sumardaginn fyrsta.

Það var ötull hópur knattspyrnuráðsmanna og leikmanna sem vann að því að setja upp bretti á Þórsvelli og taka niður sæti úr Hásteinstúkunni.

Sætunum verður síðan komið fyrir á brettunum þannig að heildarfjöldi sæta á Þórsvelli verði 300 þegar yfir líkur.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá þessum dugnaðarforkum úti í Vestmannaeyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×