Alan M. Garber, forseti Harvard-háskóla, tilkynnti um málsóknina í bréfi til háskólasamfélagsins í gær. Þar sagði hann ákvörðun ríkisstjórnar repúblikana um fyrsta um tveggja milljarða dollara fjárveitingar til skólans ógna nauðsynlegum rannsóknum á sjúkdómum.
Alríkisstjórnin frysti greiðslurnar í síðustu viku eftir að Garber neitaði að beygja sig í duftið, ólíkt stjórnendum margra annarra bandarískra háskóla, undan kröfum hennar um að hann breytti stjórnarháttum sínum, mannaráðningum og inntökuskilyrðum eftir geðþótta hennar.
„Afleiðingar þessa ofríkis ríkisstjórnarinnar verða alvarlegar og langvarandi,“ skrifaði Garber í bréfi sínu í gær. Nefndi hann sérstaklega skaðleg áhrif á rannsóknir á krabbameini í börnum, Alzheimers og Parkinsons.
Skólinn byggir stefnu sína meðal annars að því að ríkisstjórnin traðki á stjórnarskrárvörðum réttindum hans. Fjárveitingarnar hefðu verið frystar til þess að þvinga skólann til veita alríkisstjórninni stjórn á akademískum ákvörðunum við Harvard.
Fleiri en hundrað forsetar háskóla og annarra æðri menntastofnana, þar á meðal Princeton-háskóla, skrifuðu undir sameiginlega yfirlýsingu sem birtist í dag þar sem þeir lýstu aðgerðum alríkisstjórnarinnar gegn Harvard og öðrum skólum sem fordæmalausu ofríki og pólitískum afskiptum sem ógnuðu æðri menntun í landinu.
Hótað enn frekari skerðingum og refsiaðgerðum
Ríkisstjórn repúblikana hefur sakað bandaríska háskóla um að gera ekki nóg til þess að uppræta gyðingaandúð innan veggja sinna. Vísar hún til tíðra mótmæla gegn hernaði Ísraela á Gasa á bandarískum háskólasvæðum síðasta eina og hálfa árið.
Á meðal þess sem ríkisstjórnin krafðist af Harvard var að skólastjórnendur tilkynntu yfirvöldum um nemendur sem væru á móti „bandarískum gildum“. Þá vildu ríkisstjórnin fá að hafa áhrif á námskrár í skólanum.
Nokkrir aðrir háskólar hafa lúffað undan sambærilegum kröfum alríkisstjórnarinnar. Harvard, stöndugasti háskóli Bandaríkjanna, var fyrsti skólinn sem neitaði að láta undan. Fyrir vikið hefur alríkisstjórnin hótað því að skerða fjárveitingar til hans enn frekar og að svipta hann skattfrelsi. Þá gæti honum verið bannað að taka við erlendum nemendum.
Hvíta húsið brást við málsókn Harvard í gær með því að lýsa því yfir að sá tími væri liðinn sem stofnanir eins og Harvard gætu „verið á spenanum“ hjá alríkisstjórninni.
Harvard fær um níu milljarða dollara á ári frá alríkisstjórninni en það fé rennur að mestu leyti til vísindarannsókna, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Bandaríska alríkisstjórnin hefur á síðustu mánuðum stöðvað aragrúa vísindarannsókna, á öllu frá smitsjúkdómum til loftsbreytinga, ýmist með stórfelldum niðurskurði hjá alríkisstofnunum eða með banni við að þær styðji verkefni sem ganga frá pólitískri hugmyndafræði núverandi valdhafa.