Sport

Komin átta mánuði á leið en kláraði fimm kíló­metra á tuttugu mínútum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það sást vel á bandarísku hlaupakonunni enda á hún að eiga eftir aðeins fimm vikur. Þessi mynd tengist fréttinni ekki beint.
Það sást vel á bandarísku hlaupakonunni enda á hún að eiga eftir aðeins fimm vikur. Þessi mynd tengist fréttinni ekki beint. Getty/Katja Knupper

Reilly Kiernan vakti mikla athygli í Boston maraþoninu yfir páskahátíðina og ekki bara fyrir bumbuna sína.

Hin bandaríska Kiernan lét það ekki stoppa sig að vera komin átta mánuði á leið. Það er þó ekki bara að hún hafi hlaupið þessa fimm kílómetra þrátt fyrir að vera kasólétt.

Hún kláraði hlaupið nefnilega á frábærum tíma eða á innan við tuttugu mínútum.

Tími Kiernan var nítján mínútur og 36 sekúndur. Hún og 35 vikna bumban hennar enduðu í sjötta sæti í sínum aldursflokki.

„Ég er án nokkurs vafa komin með það stóra bumbu að fólk var hissa að sjá mig hlaupa með sér,“ sagði Reilly Kiernan hlæjandi eftir hlaupið í samtali við Boston Globe.

„Einn hlauparinn við hliðina á mér í upphafi hlaupsins sagði við mig: Gangi ykkur báðum vel,“ sagði Kiernan létt.

Þegar Kiernan hljóp sömu vegalengd árið 2022 þá kláraði hún hlaupið á 16 mínútum og 40 sekúndum.

„Þetta er auðvitað allt öðruvísi og engin pressa heldur. Bara að hafa gaman af þessu og passa upp að vera með góða stjórn á öllu,“ sagði Kiernan.

Hún á von á stelpu og er sett 25. maí næstkomandi. Þetta er hennar annað barn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×