Erlent

Breskir þing­menn leggjast gegn því að Trump á­varpi þingið

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Keir Starmer og Donald Trump.
Keir Starmer og Donald Trump. AP/Carl Court

Þingmenn og lávarðar á breska þinginu kalla eftir því að Donald Trump Bandaríkjaforseta verði meinað að ávarpa þingið þegar hann kemur í opinbera heimsókn.

Lávarðar kallast þeir sem eiga ævilangt sæti í lávarðadeildinni.

Í kjölfar fundar þeirra Trump og Keirs Starmer forsætisráðherra Bretlands hefur verið greint frá því að Trump komi í opinbera heimsókn til Bretlands í haust en forverar hans Barack Obama, Ronald Reagan og Bill Clinton ávörpuðu allir báðar deildir breska þingsins í tilefni af heimsóknum þeirra.

Guardian fjallar um það að McFall lávarði af Alcluith, sem er forseti efri deildar þingsins, hafi borist hvatningar til að leggjast gegn því að Trump fái að ávarpa deildina vegna skoðana hans og ummæla í garð Bretlands, þingræði, Atlantshafsbandalagsins og Úkraínu.

Foulkes lávarður, fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Verkamannaflokks Tony Blair, fer fyrir hópi lávarða sem leggjast gegn hugsanlegu ávarpi Bandaríkjaforseti.

„Þrátt fyrir að ríkisstjórnin sé nauðbeygð til að eiga við alls konar stjórnvöld ætti þingið ekki að taka á móti leiðtoga sem er andvígur lýðræði og virðir ekki dómstóla og lög,“ segir Foulkes lávarður.

„Þar að auki fordæmir hann ekki innrás Rússa í Úkraínu, sem allir flokkar á breska þinginu hafa gert,“ segir hann.

Kate Osborne, þingkona Verkamannaflokksins, hefur einnig samkvæmt umfjöllun breskra miðla beðið Lindsay Hoyle, forseta neðri deildarinnar, að mótmæla hugsanlegu ávarpi Bandaríkjaforseta.

Hefð er fyrir því að Bandaríkjaforsetar sem komi í opinbera heimsókn til Bretlands á öðru kjörtímabili þeirra í embætti fari á fund konungs í Windsor-höll, líkt og George Bush yngri og Barack Obama gerðu hvor á sinni embættistíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×