Fréttastofu bárust í morgun myndir og myndbönd af langri röð sem náði langt niður í brottfararsal flugstöðvarinnar. Röðin náði um tíma í stóran hring langt niður að innritunarborðum á jarðhæð byggingarinnar og þaðan upp tröppurnar að öryggisleitinni.
Sjá einnig: Röðin í öryggisleitina nær langt inn í brottfararsal
Fólk sem fréttastofa ræddi við sem var í Leifsstöð í morgun lýsir því hvernig greina hafi mátt óánægju meðal starfsfólks í brottfararsalnum, sem hafi sagt að færri væru að vinna við öryggisleitina en óskandi væri. Myndir sýna einnig að þegar mest lét voru ekki öll öryggisleitarhlið í notkun.
Röðin komin niður í tólf mínútur
Fulltrúar Isavia gáfu ekki kost á viðtali vegna málsins, en að sögn staðgengils upplýsingafulltrúa Isavia, skýrist röðin að einhverju leyti af því að fólk hafi verið seinna á ferðinni á völlinn en við hafi verið búist.

Lítil sem engin örtröð hafi verið snemma í morgun, en bætt hafi vel í röðina þegar líða tók á morgunin. Mönnun við öryggisleit taki mið af áætlanarflugi og brottförum, en ferðalangar hafi verið seinni á ferðinni í morgun en búist var við, að sögn staðgengils upplýsingafulltrúa.
Á um 90 mínútna tímabil í morgun hafi fólk þurfti að bíða í um fjörutíu mínútur eftir að komast í gegnum öryggisleit. Staðan sé mun betri nú, en þegar fréttastofa náði tali af fulltrúa Isavia um ellefu leytið var ekki nema um tólf mínútna biðröð í öryggisleitinni. Isavia brýnir fyrir ferðalöngum að vera tímanlega á ferðinni á völlinn, enda páskarnir háannatími til ferðalaga.
