Staða KA-manna, sem steinlágu gegn Víkingi um helgina 4-0 eftir 2-2 jafntefli á heimavelli við KR í fyrsta leik, var til umræðu í Stúkunni í gærkvöld. Brot úr þættinum má sjá hér að neðan.
KA er nú búið að landa Rømer sem var fyrirliði Lyngby og er með mikla reynslu úr dönsku úrvalsdeildinni. Gummi Ben benti hins vegar á það í Stúkunni í gær að Rømer hefði síðast verið í byrjunarliði Lyngby 1. desember og aðeins spilað eina mínútu síðan þá.
„Ef við höfum áhyggjur af hinum sem eru að koma úr meiðslum og annað, ættum við ekki að hafa stórar áhyggjur af að það taki þennan svolítinn tíma að komast í leikform?“ spurði Gummi.
„Þetta er karakter, þetta er fyrirliði, og það er alltaf jákvætt að fá þannig menn inn í liðið. Ég fylgdist vel með honum, sérstaklega hjá SönderjyskE og svo sá maður margar fréttir af honum þegar hann var að spila hjá Freysa [Frey Alexanderssyni, fyrrverandi þjálfara Lyngby]. Þetta er leikmaður með mótor. Það er mikil yfirferð hjá honum. Þetta er góður leikmaður. Ég skil því þessi kaup en það er rétt að hann þarf að vera í formi,“ sagði Baldur Sigurðsson.
„Hann er að verða 34 ára gamall og liðið þeirra er nú þegar helvíti þungt. Hallgrímur verður 35 ára í sumar, Rodri 36, Hrannar er að verða 33, Viðar 35 ára og fer meiddur af velli [gegn Víkingi]…“ bætti Albert Brynjar Ingason við. Gummi hélt svo áfram:
„Það er ekkert leyndarmál fyrir norðan og ég held að Hallgrímur Jónasson yrði fyrsti maður til að viðurkenna það, að hann myndi vilja fá leikmenn mikið fyrr norður. KA er bara búið að leggja það í vana sinn að bregðast mjög seint við varðandi styrkingu. Við sáum þetta á síðustu leiktíð. Viðar kom seint og það var bara seinni partinn sem hann var kominn í stand. Það kostar meira að fá leikmenn fyrr en það kostar líka að ná ekki árangri.“
Albert benti á að KA hefði misst marga sterka leikmenn síðustu ár en ekki fengið sams konar leikmenn í staðinn.
„Þá vantar alvöru innspýtingu. [Römer] er karakter, maður hefur heyrt það, en hvort þetta leysir eitthvað hjá KA veit ég ekki,“ sagði Albet.