Rømer er 33 ára gamall og hefur verið leiðtogi hjá Lyngby um árabil, meðal annars sem fyrirliði þegar Freyr Alexandersson stýrði liðinu. Rømer hefur í vetur aðeins leikið þrjá leiki í byrjunarliði í dönsku úrvalsdeildinni en áður leikið um 250 leiki í deildinni, með Lyngby, Sönderjyske, Viborg og Køge.
Í tilkynningu frá KA segir að þó að Rømer leiki iðulega á miðri miðjunni geti hann einnig leikið sem miðvörður.
Hann hóf feril sinn í HB Køge þar sem hann braut sér leið inn í meistaraflokkslið félagsins árið 2009. Þar lék hann 98 leiki uns hann gekk í raðir Viborg árið 2013. Þar lék hann í þrjú ár og gekk í kjölfarið í raðir SønderjyskE. Þar lék hann 101 leik áður en hann gekk loks í raðir Lyngby árið 2019. Þá lék Rømer 8 leiki með yngri landsliðum Danmerkur á sínum tíma og gerði í þeim eitt mark.
Næsti leikur KA er í Mjólkurbikarnum á föstudaginn þegar KFA mætir norður á Greifavöllinn. KA-menn eru með eitt stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í Bestu deildinni, eftir jafntefli við KR en tap gegn Víkingi, en mæta Val á Hlíðarenda á miðvikudaginn eftir viku, í næstu umferð.