Innlent

Börn hverfi inn í of­beldis­fulla öfgamenningu á netinu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Finnbogi Jónasson segir samfélagið á Íslandi vera að breytast á ofsahraða.
Finnbogi Jónasson segir samfélagið á Íslandi vera að breytast á ofsahraða. Stöð 2

Aðstoðaryfirlögregluþjónn greiningardeildar ríkislögreglustjóra segir lögregluna meðvitaða um einstaklinga á táningsaldri sem taka þátt í spjallborðum um ofbeldisfulla öfgamenningu á netinu.

Finnbogi Jónasson, aðstoðaryfirlögregluþjónn greiningardeildar ríkislögreglustjóra, segir lögreglu þurfa á auknum forvirkum heimildum að halda til að bregðast við þeim öru breytingum sem eiga sér stað í íslensku samfélagi. Hann ræddi þetta á Sprengisandi á Bylgjunni í dag.

Finnbogi segir nauðsynlegt að grípa inn í áður en það verður of seint.

„Þeim mun fyrr sem að börnin okkar lenda í einhverjum öfgum, alveg sama hvaða öfgar það eru, hvort það eru hægri öfgafullar ofbeldisskoðanir um það hvernig samfélagið eigi að vera eða öfgar í áfengis- eða fíkniefnaneyslu. Um leið og við missum börnin okkar inn í það, þá er svo erfitt að fá þau til baka,“ segir hann.

Hann segir ofbeldisorðræðu á netinu geta undið hratt upp á sig og að auknar eftirlitsheimildir lögreglu dugi ekki einar og sér. Allt samfélagið þurfi að takast á við vandann sem við blasir.

„Þetta byrjar kannski lítið. við sjáum þegar við ræðum við okkar samstarfsmenn, hver er vöxturinn í þessu. Þetta byrjar sem umræða svo verður þetta lítil atvik eins og veggjakrot, smávægileg skemmdarverk. Síðan verður þetta að einhvers konar ofbeldisverkum, litlir hópar fara og ráðast á einstaklinga, síðan er farið að ráðast á stærri hópa. Þetta vex og ef við grípum ekki inn í vex þetta og verður stærra og stærra,“ segir Finnbogi.

Hryðjuverkaógn hafi aukist

Greiningardeild ríkislögreglustjóra gaf út nýja skýrslu um hryðjuverkaógn á Íslandi í vikunni. Hættumatið helst óbreytt frá síðasta ári þar sem talin er aukin hætta á hryðjuverkaógn, þó kemur þar fram að ógnin hafi aukist lítillega.

Ógnin stafi helst af ofbeldishneigðum einstaklingum sem sæki í áróður hægri öfgamanna og -hreyfinga. Innræting hægri öfgahyggju á netinu sé merkjanleg meðal íslenskra ungmenna en lögreglan hafi litlar heimildir til að bregðast við.

Fólk hverfi inn í nafnleysið

Finnbogi segir Ísland vera að breytast hratt.

„Við erum á ofsahraða að færast frá þessu litla samfélagi þar sem allir þekkja alla. Bæði hverfur fólk inn til sín, inn í internetið og inn í nafnleysið. Síðan fjölgar gríðarlega í samfélaginu. Það fjölgar ekki bara Íslendingum, við getum horft á einstaklinga af erlendum uppruna sem eru á Íslandi, það er mjög hátt. Það veldur erfiðleikum, þá erum við ekki þar að allir þekkja alla,“ segir hann.

Hann tekur þó fram að Ísland standi enn vel á heimsvísu og að áskoranirnar á Íslandi séu smærri en þær á Norðurlöndunum til dæmis. Það sé þó ekkert fast í hendi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×