Hægt verður að fylgjast með útsendningu frá verðlaunahátíðinni í spilaranum að neðan.
Í tilkynningu frá Hugverkastofu segir að Nýsköpunarverðlaun Norðurlandanna (Nordic Innovation Award) séu ný verðlaun sem hugverkastofur Norðurlandanna standi að í sameiningu til að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar og hugverkaverndar.
Fyrirtækin fimm sem eru tilnefnd til verðlaunannar árið 2025 eru:
Ísland: Carbfix
Carbfix hefur þróað byltingarkennda og einkaleyfisvarða aðferð til að binda koltvísýring í bergi til að vinna gegn gróðurhúsaáhrifum
Danmörk: SiteCover
SiteCover hefur hefur þróað einkaleyfisvarðar yfirbyggingar fyrir byggingarstaði til að hægt sé að vinna við þurrar aðstæður óháð veðri. Uppistöður bygginganna virka einnig sem uppistöður fyrir hlaupaketti.
Finnland: Origin by Ocean
Origin by Ocean hefur þróað einkaleyfisvarðar aðferðir til að vinna ýmis efni úr brúnþörungum, m.a. fyrir snyrti- og matvælaiðnað.
Svíþjóð: GreenIron
GreenIron hefur þróað nýja og einkaleyfisvarða aðferð til að framleiða járn og aðra málma án þess að losa gróðurhúsalofttegundir.
Noregur: Cartesian
Cartesian hefur þróað nýja og einkaleyfisvarða aðferð til að geyma og miðla varmaorku í byggingum og þannig spara orku og orkukostnað.
„Dómnefnd sem skipuð er forstjórum hugverkastofa Íslands, Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs og Finnlands, auk fulltrúa nýsköpunarsamfélagsins í hverju landi, mun velja eitt fyrirtæki sem hlýtur verðlaunin. Við mat á tilnefndum fyrirtækjum verður horft til fimm þátta:
- Nýsköpun - Nýsköpunin verður að fela í sér nýja og frumlega nálgun, vísindi eða tækni, einstakar aðferðir eða skapandi lausnir við úrlausn vandamála.
- Sjálfbærni - Nýsköpunin þarf að stuðla að aukinni sjálfbærni og framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna (SDG).
- Viðskiptalegur lífvænleiki og vaxtarmöguleikar - Nýsköpunin þarf að skapa grundvöll fyrir raunhæfa og skalanlega viðskiptahugmynd sem líklegt er að skili arði til framtíðar.
- Mælanlegur árangur – Sýna þarf fram á að nýsköpunin hafi skilað mælanlegum árangri, hvort sem það er í formi sölutekna, markaðssóknar, viðskiptaáætlana eða nýrrar og viðurkenndrar aðferðafræði.
- Skráð hugverk – Nýsköpunin þarf að vera vernduð með skráðum hugverkaréttindum (einkaleyfi, vörumerki eða hönnun) á viðeigandi mörkuðum.
Markmið verðlaunanna er að hvetja og verðlauna norræn fyrirtæki sem þróað hafa framúrskarandi nýsköpunarhugmyndir og tryggt hugverkarétt sinn. Þeim er ætlað að stuðla að auknum skilningi á mikilvægi hugverkaréttar í nýsköpun og framlagi nýsköpunar til sjálfbærrar þróunar atvinnulífs og samfélags.
Hugverkastofan hefur ákveðið, í samráði við samstarfsaðila um Nýsköpunarverðlaun Íslands: Rannís, Íslandsstofu og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, að það fyrirtæki sem hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands hverju sinni verði tilnefnt fyrir Íslands hönd til Nýsköpunarverðlauna Norðurlandanna,“ segir í tilkynningunni.