Viðskipti erlent

Á­fram lækkanir við opnun markaða í Evrópu

Atli Ísleifsson skrifar
Vísitalan í kauphöllinni í Frankfurt lækkaði um heil 10 prósent við opnun í morgun, en sú lækkun hefur þó eitthvað gengið til baka.
Vísitalan í kauphöllinni í Frankfurt lækkaði um heil 10 prósent við opnun í morgun, en sú lækkun hefur þó eitthvað gengið til baka. Ap

Markaðir í Evrópu hafa tekið mikla dýfu við opnun í morgun. Vísitalan í þýsku kauphöllinni lækkuðu um 10 prósent við opnun í morgun en sú lækkun hefur þó eitthvað gengið til baka.

Lækkanir á mörkuðum eru raktar til þeirra tollaálagna sem Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti í síðustu viku. 

FTSE-vísitalan í London lækkaði um 2,4 prósent við opnun í morgun og og franska vísitalan um sex prósent. Í Svíþjóð lækkaði vísitalan um átta prósent við opnun og í Noregi um fimm prósent.

Miklar lækkanir hafa sömuleiðis orðið á asískum mörkuðum. Þannig hafði vísitalan í Hong Kong lækkað um 13,22 prósent við lokun markaða og er dagurinn sagður sá versti í 28 ár, eða í asísku fjármálakreppunni árið 1997.

Svipaða sögu er að segja frá Japan þar sem Nikkei-vísitalan hafði lækkað um 7,8 prósent við lokun. Lækkunin í Japan er að stærstum hluta rakin til lækkunar hjá bönkum en einnig varð lækkun hjá hlutabréfum í fyrirtækjum á borð við Nintendo og Toyota.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur sömuleiðis lækkað í morgun. Verð á Brent hráolíu lækkaði um tíu prósent í síðustu viku og lækkaði um önnur fjögur prósent í morgun. Verð á tunnunni er nú 63,04 dalir.


Tengdar fréttir

Enn meiri lækkanir í Asíu við opnun markaða

Markaðir í Asíu tóku mikla dýfu við opnun í morgun og ekkert lát er á lækkunum á hlutabréfaverði frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti fyrirætlanir sínar um miklar tollaálögur sem hann hyggst leggja á öll ríki. Nikkei vísitalan í Japan lækkaði um heil 6,5 prósent í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×