Fótbolti

Fékk hjólhestaspyrnu í hausinn og endaði á sjúkra­húsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Walker Zimmerman liggur rotaður á vellinum eftir að hafa fengið hjólhestaspyrnu í hausinn. Aðrir leikmenn kalla á hjálp.
Walker Zimmerman liggur rotaður á vellinum eftir að hafa fengið hjólhestaspyrnu í hausinn. Aðrir leikmenn kalla á hjálp. Getty/David Jensen

Bandaríski varnarmaðurinn Walker Zimmerman var fluttur á sjúkrahús í miðjum leik Nashville SC og Charlotte FC í bandarísku MLS deildinni í fótbolta.

Zimmerman fékk þá hjólhestaspyrnu mótherja í hausinn og steinlá. Hann var fluttur af vellinum á börum og með hálskraga.

Seinna bárust fréttir af því að Zimmerman væri með meðvitund og hann hefur nú verið útskrifaður af sjúkrahúsinu sem eru góðar fréttir.

Zimmerman ætlaði að skalla boltann frá marki sínu en um leið reyndi Kerwin Vargas hjólhestaspyrnu.

„Ég hef spilað það lengi með Walker að ég hef séð hann oft troða hausnum sínum í vafasamar aðstæður. Ef ég segi alveg eins og er þá er það eitt af því sem gerir hann frábæran og svo mikilvægan fyrir okkar lið. Hann er vopn fyrir okkur bæði í sókn og vörn,“ sagði Daniel Lovitz liðsfélagi Zimmerman í vörn Nashville.

„Þetta eru bara erfiðar aðstæður. Þarna er leikmaður að reyna að skora stórkostlegt mark og er ekki að reyna að meiða einn eða neinn. Hann hafði enga hugmynd um að Walker væru að troða hausnum sínum þangað, því hann var bara að reyna að skora mark,“ sagði Lovitz.

Zimmerman hefur tvisvar sinnum verið kosinn varnarmaður ársins í MLS deildinni og var þarna að spila sinn 273 deildarleik í MLS. Hann er á sínu þrettánda tímabili í deildinni en hefur auk þess spilað 43 landsleiki fyrir Bandaríkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×