Íslenski boltinn

Ís­lenskir dómarar verða á sam­félags­miðlum í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pétur Guðmundsson var kosinn besti dómarinn af leikmönnum Bestu deildar karla í fyrra en það var þriðja árið í röð sem hann hlýtur þau verðlaun.
Pétur Guðmundsson var kosinn besti dómarinn af leikmönnum Bestu deildar karla í fyrra en það var þriðja árið í röð sem hann hlýtur þau verðlaun. Vísir/Hag

Dómarar í ensku úrvalsdeildinni notuðu í vetur samfélagsmiðla til að koma réttum upplýsingum til fótboltáhugafólks og nú ætla íslenskir dómarar að fara sömu leið.

Dómaranefnd og Knattspyrnusamband Íslands hafa nefnilega sett upp Instagram síðu fyrir dómara hjá KSÍ.

Þar mun birtast niðurröðun úr Bestu deild kvenna og karla ásamt ýmsu áhugaverðu efni sem tengist dómgæslu, meðal annars erlend verkefni hjá dómurum, fréttir af dómaranámskeiðum, greiningar á atvikum og svo framvegis.

Það verður fróðlegt að sjá hvort að dómarar muni þar útskýra umdeilda dóma á samfélagsmiðlum eða jafnvel hvort þeir viðurkenni mistök sín á þessum vettvangi.

Greining á atvikum ætti samt að hjálpa til við að eyða öllum misskilningi og hjálpa til við að útskýra stöðu dómara í erfiðum ákvörðunum sem þeir þurfa að taka á sekúndubroti.

Hingað til hafa færslur á síðunni snúist um almennar tilkynningar en þar mátti sjá að dómarahópurinn hittist fimm dögum fyrir mótið og fór þar yfir sumarið framundan.

Á síðunni kemur fram að Ívar Orri Kristjánsson dæmir opnunarleik Breiðabliks og Aftureldingar í kvöld og aðstoðardómarar verða Birkir Sigurðsson og Gylfi Már Sigurðsson Gunnar Freyr Róbertsson verður fjórði dómari.

Hér fyrir neðan má einnig sjá þá sem dæma leikina þrjá á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×