Fótbolti

Mourinho reif í nefið á stjóra mót­herjanna eftir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho missti algjörlega stjórn á sér í kvöld og hér sést Okan Buruk liggja í grasinu eftir að Mourinho reif í nef hans.
Jose Mourinho missti algjörlega stjórn á sér í kvöld og hér sést Okan Buruk liggja í grasinu eftir að Mourinho reif í nef hans. Getty/Murat Akbas

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Fenerbahce, var súr og svekktur eftir bikartap í kvöld og gæti hafa komið sér í enn meiri vandræði.

Lærisveinar Mourinho töpuðu þá 2-1 á heimavelli á móti Galatasaray í átta liða úrslitum tyrkneska bikarsins.

Eftir leikinn sást Mourinho rífa í nefið á Okan Buruk, stjóra Galatasaray liðsins. Buruk féll sárþjáður í grasið eins og sjá má hér fyrir neðan.

Það gekk mikið á í leiknum og dómarinn hafði sent þrjá leikmenn snemma í sturtu, einn hjá Fenerbahce og tvo hjá Galatasaray.

Svo mikið gekk á að lögreglan þurfti að koma inn á völlinn til að stilla til friðar.

Mourinho fékk fjögurra leikja bann eftir ummæli sín eftir síðasta leik á móti Galatasaray. Forráðamenn Galatasaray sökuðu Mourinho um rasisma sem hann neitaði harðlega.

Galatasaray sendi Mourinho skilaboð á samfélagsmiðlum eftir leikinn þar sem stóð: Þú átt ekki að ráðast á okkur heldur kyngja úrslitunum.

Í annarri færslu mátti sjá skopmynd af Jose Mourinho og undir henni stóð: Galatasaray gerir þig brjálaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×