Innlent

Ein af dekkstu sviðsmyndunum að raun­gerast

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Runólfur Þórhallsson hjá almannavörnum
Runólfur Þórhallsson hjá almannavörnum Vísir/Arnar Halldórsson

Neyðarstig vegna eldgoss sem hófst á Sundhnúkagígaröðinni um klukkan tuttugu mínútur í tíu í morgun. Gossprungan virðist nú hægt og rólega vera að stækka bæði til norðurs og suðurs og sprungan teygir sig jafnt og þétt nær Grindavíkurbæ. „Það er staðan. Hún virðist vera að stækka smátt og smátt í báðar áttir og það er bara núverandi staða,“ segir Runólfur Þórhallsson sviðsstjóri hjá almannavörnum.

„Þetta er ein af dekkri sviðsmyndunum sem að við höfum verið að skoða undanfarið. Þetta svipar að mörgu leyti til gossins í janúar 2024 og þeirrar atburðarásar sem var í gangi þá,“ segir Runólfur um þá staðreynd að gossprungan hefur teygt sig inn fyrir varnargarða nærri Grindavík.

Í viðbragðsstöðu til að hefja hraunkælingu eða varnargarðavinnu

Vinna hófst þegar af stað í morgun við undirbúning að hugsanlegri hraunkælingu eða frekari varnargarðauppbyggingu að sögn Runólfs. Fylgst verður grannt með gangi mála og metið hvort og hvenær yrði farið af stað í slík verkefni. „Það fór allt af stað strax í morgun til að gera allt klárt fyrir bæði þá minniháttar leiðingu, upp á að byggja einhvers konar leiði-varnargarða minni háttar, þannig við erum búin að ræsa það. Eins hvað varðar hraunkælingu og viðbragð slökkviliðs og að koma dælum og öðru á fyrirfram ákveðna staði, það hófst strax í morgun og sú vinna er áframhaldandi,“ segir Runólfur.

„Það er verið að fylgjast með þessari atburðarás og hvernig hún þróast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×