Baldur Sigurðsson heimsótti Eyjar í þriðja þætti Lengsta undirbúningstímabils í heimi sem verður sýndur á Stöð 2 Sport klukkan 21:00 í kvöld.
Baldur fór meðal annars með Þorláki á Hásteinsvöll og ræddi við hann um breytingarnar á þessum sögufræga velli.
„Það eru ekkert allir sáttir við þetta. Það er náttúrulega ofboðslega miklar minningar sem tengjast þeim sem hafa fylgst með ÍBV í gegnum tíðina. Við vorum með Helgafellsvöllinn en grasið á þeim velli var aldrei gott. Þegar Hásteinsvöllur var bestur var hann svakalega góður. Það eru margir sem sjá á eftir náttúrulega grasinu hérna,“ sagði Þorlákur.
Vallarstæðið við Hásteinsvöll þykir eitt það fallegasta á byggðu bóli.
„Erlendu leikmennirnir þekkja þetta vallarstæði. Þetta er eitt af fallegustu vallarstæðum í heiminum. Þetta öskrar á mann,“ sagði Þorlákur.
ÍBV hefur leik í Bestu deildinni á Þórsvelli. Að sögn Þorláks er grasið þar fínt en setja þarf upp stúku og vallarklukku til að hægt verði að spila þar í Bestu deildinni.
Fyrsti heimaleikur ÍBV er gegn Fram 24. apríl.
Þriðji þáttur Lengsta undirbúningstímabils í heimi verður sýndur á Stöð 2 Sport klukkan 21:00 í kvöld.