„Við erum ótrúlega spenntar og getum gert góða hluti gegn þessu liði. Þetta er sterkt lið og við spiluðum ekki nógu vel, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þannig að ef við byrjum bara frá fyrstu mínútu, þá eigum við góðan möguleika“ sagði Elín einnig í viðtali sem var tekið á föstudag og má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
„Eigum í alvörunni möguleika“
Valur getur orðið fyrsta íslenska kvennaliðið frá upphafi til að komast í úrslitaleik í Evrópukeppni. Karlaliðið hefur gert það tvisvar og unnið keppnina einu sinni, í fyrra gegn Olympiacos.
Ævintýrið hefur verið mikið hjá Valskonum, sem hafa slegið út ógnarsterk lið á leiðinni í undanúrslit, og ætla sér að leika afrek karlaliðsins eftir.
„Við erum búin að mæta liðinu og sjáum að við eigum í alvörunni möguleika. Maður veit aldrei, þó maður horfi á einhver video, þá veit maður aldrei hvernig andstæðingurinn er. Þannig að já, það er klárlega þægilegra að koma inn í þennan leik“ sagði Elín að lokum.