„Sjónarspilið þegar tunglið kemur milli sólar og jarðar byrjar um tíuleytið og nær hámarki sínu rétt eftir klukkan ellefu. Svo verður þetta búið rétt eftir klukkan tólf,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.
Veðurfræðingur varar við því að horfa á sólmyrkva með berum augum, það geti valdið sjónskaða. Ef fólk hyggst fylgjast með deildarmyrkvanum sé til að mynda mælt með að horfa í gegnum rafsuðugler eða þar til gerð sólmyrkvagleraugu.
Í dag verður austan og norðaustan 8-13 m/s og snjókoma með köflum, en 13-20 m/s með talsverðri snjókomu um tíma Suðaustanlands, einkum sunnan Öræfajökuls. Gul viðvörun er í gildi á Suðausturlandi til klukkan sjö í kvöld.
Víða verður vægt frost en spáð er allt að fimm stigum á sunnan- og suðvestanverðu landinu.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á sunnudag:
Breytileg átt 3-8 m/s, skýjað með köflum og sums staðar dálítil él, hiti um frostmark. Vaxandi suðaustanátt eftir hádegi með slyddu eða rigningu, en snjókomu norðanlands um kvöldið. Hlýnar í veðri.
Á mánudag:
Suðvestan 10-18, hvassast sunnantil. Rigning eða slydda, en að mestu bjart norðaustantil. Hiti 1 til 6 stig, en kólnar með éljum síðdegis.
Á þriðjudag:
Suðlæg átt 8-15 og rigning eða slydda, en lengst af þurrt norðaustantil. Hiti 1 til 10 stig, hlýjast sunnan- og austanlands.
Á miðvikudag:
Minnkandi vestlæg átt og él eða snjókoma. Frost 0 til 4 stig, en yfirleitt frostlaust sunnantil.
Á fimmtudag:
Sunnanátt og rigning eða slydda, en bjart með köflum á austanverðu landinu. Hiti 1 til 8 stig, svalast á Vestfjörðum.
Á föstudag:
Útlit fyrir suðvestlæga átt. Skýjað og dálítil væta af og til, en bjart veður á austanverðu landinu. Hiti 6 til 12 stig.