Þrátt fyrir að Lionel Messi og Lautaro Martínez hafi verið fjarri góðu gamni átti argentínska liðið ekki í neinum vandræðum gegn því brasilíska. Sigur Argentínu er sá stærsti á Brasilíu síðan 1964.
Leikurinn var aðeins fjögurra mínútna gamall þegar Julián Alvarez kom Argentínu yfir. Átta mínútum síðar tvöfaldaði Enzo Fernández forskot heimamanna.
Á 26. mínútu minnkaði Matheus Cunha muninn í 2-1 eftir slæm varnarmistök Cristians Romero.
Ellefu mínútum síðar jók Alexis Mac Allister muninn aftur í tvö mörk og á 71. mínútu gulltryggði Giuliano Simeone sigur Argentínu með sínu fyrsta landsliðsmarki.
Eftir markalaust jafntefli Úrúgvæ og Bólivíu fyrr um daginn var ljóst að Argentína var örugg með sæti á HM 2026. Liðið er í efsta sæti Suður-Ameríkuriðilsins með 31 stig eftir fjórtán leiki.
Á meðan er Brasilía í 4. sæti með 21 stig og pressan á þjálfaranum Dorival Júnior er talsverð. Brassar hafa aðeins unnið sjö af sextán leikjum undir hans stjórn.